22. feb. 2008

Foreldrar velja skóla fyrir börn sín - kynningarfundur 27. feb. kl. 20

Foreldrar velja skóla fyrir börn sín - kynningarfundur 27. feb. kl. 20
  • Séð yfir Garðabæ


Foreldrar barna sem hefja grunnskólagöngu í haust þurfa þessa dagana að kynna sér þá skóla sem eru í boði og taka ákvörðun um skólagöngu barnsins í framhaldi af því. Kynningarfundur um val á grunnskóla verður haldinn miðvikudaginn 27. febrúar 2008 kl. 20-21.30 í Tónlistarskóla Garðabæjar. Innritun í skólana fer fram síðar í þessum mánuði.

Hér fyrir neðan er viðtal við Oddnýju Eyjólfsdóttur, deildarstjóra skóladeildar sem birtist í Garðapóstinum 21. febrúar þar sem hún fjallar um val foreldra á skóla fyrir börn sín.

Frá AlþjóðaskólanumFimm skólar til að velja um

Í Garðabæ geta foreldrar valið um fimm ólíka skóla sem innrita börn í fyrsta bekk. Garðabær rekur þrjá þeirra, þ.e. Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla. Hinir tveir skólarnir eru einkrareknir en þeir eru Barnaskóli Hjallastefnunnar og Alþjóðaskólinn. Samkvæmt samningi Garðabæjar við þessa tvo skóla borga börn úr Garðabæ engin skólagjöld þar.

Foreldrum verðandi 1. bekkinga boðið á kynningarfund

Oddný Eyjólfsdóttir, deildarstjóri skóladeildar segir að skólarnir fimm hafi ólík leiðarljós og áherslur í starfinu þótt þeir starfi allir eftir sömu aðalnámskrá nema Alþjóðaskólinn. “Foreldrar barna sem fædd eru 2002 fá á allra næstu dögum sendan bækling þar sem skólarnir fimm kynna starf sitt í stuttu máli. Þeir fá einnig sent boð á kynningarfund sem haldinn verður í Tónlistarskóla Garðabæjar miðvikudaginn 27. febrúar kl. 20-21.30 en þar kynna forsvarsmenn skólanna starfið í máli og myndum. Mikilvægt er að foreldrar mæti á fundinn og nýti tækifærið til að kynna sér skólana og spyrja forsvarsmenn þeirra út úr.” ´

Frjálst val leiðir til betri þjónustu

Oddný segir að ýmislegt hafi breyst eftir að bæjarstjórn ákvað árið 2004 að foreldrar skyldu eiga frjálst val um skóla fyrir börn sín. “Skólar Garðabæjar hafa beinlínis verið hvattir til að styrkja sérstöðu sína til að foreldrar hafi sem fjölbreyttast val, bæði hvað varðar hugmyndafræði og rekstrarform. Einkareknu skólarnir hafa síðan hvor um sig mjög skýra hugmyndafræði og eru þannig skýrir valkostir. Ég held að það sé óhætt að segja að við erum að sjá það gerast hér sem rannsóknir frá nágrannalöndum okkar hafa sýnt, þ.e. að frjálst val varðandi þjónustu leiðir til þess að hún batnar, fagmennska eykst og áhrif íbúa aukast. Foreldrar ættu því virkilega að gefa sér tíma til að skoða þá skóla sem eru í boði áður en þeir innrita barn sitt í skóla”

Fjölbreytni skiptir höfuðmáli

Oddný bætir við að mikill fengur hafi verið að því að fá nýjasta skólann í grunnskólaflóru Garðabæjar, í sveitarfélagið, en það er Alþjóðaskólinn. Þar er boðið upp á tvítyngt skólaumhverfi og unnið er eftir alþjóðlegri námskrá. Þetta er alveg nýr valkostur í bænum sem getur hentað ýmsum. Aðalatriðið er að fjölbreytnin sé til staðar og að hægt sé að koma til móts við þarfir sem flesta. “Það hafa öll börn sterkar hliðar og aðrar sem þarf að styrkja og það sama hentar ekki öllum.

Á fundinum 27. febrúar gefst foreldrum kostur á að fá miklar upplýsingar á einum stað. Þeir fá einnig tækifæri til að beina spurningum til forsvarsmanna skólanna og ættu því að fundi loknum að hafa skýra mynd af þeim valkostum sem eru í boði fyrir börn í Garðabæ. Ég vonast því til að sjá sem flesta foreldra 27. febrúar og að þar myndist skemmtilegar og lifandi umræður,” segir Oddný.