7. feb. 2008

Listadagar barna og ungmenna 2008

Listadagar barna og ungmenna 2008
  • Séð yfir Garðabæ


Mikið verður um dýrðir í Garðabæ 9.-12. apríl en þá verða haldnir listadagar barna og ungmenna í þriðja sinn. Árið 2003 voru fyrst haldnir sérstakir listadagar fyrir börn og ungmenni og síðan aftur í mars árið 2006.

Frá listadögum 2006

Þema listadaganna í ár er NÁTTÚRAN-UMHVERFIÐ. Skólar bæjarins eru í óða önn að skipuleggja dagskrá fyrir listadagana og ætla þeir að vinna verkefni og sýna margs konar verk sem tengjast umhverfi og náttúru 9.-12. apríl.

Margar listgreinar sýnilegar

Á fyrri listadögum hefur listsköpun barna og ungmenna í Garðabæ komið vel í ljós enda hafa bæjarbúar getað notið listaverka frá meðal annars leikskólum, grunnskólum, Tónlistarskóla Garðabæjar og Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Jafnframt hefur félagsmiðstöðin Garðalundur ekki látið sitt eftir liggja og einnig eru fjölmargir ungir Garðbæingar sem stunda listsköpun á eigin vegum í Garðabæ eða annars staðar. Á listadögunum er ætlunin að reyna draga fram og bjóða til sýningar og flutnings fjölbreytileg verk eftir mismunandi aldurshópa. Margar listgreinar verða sýnilegar á listadögum. Meðal annars verður sýning í Hönnunarsafninu og Bókasafn Garðabæjar mun starfrækja ritsmiðju og mun valinkunnur höfundur líta í heimsókn.

Efla tengsl skóla, fyrirtækja og stofnana

Að þessu sinni er ætlunin að efla tengslin milli skóla, fyrirtækja og stofnana í bænum. Hugmyndin er að í fyrirtækjum verði listaverk barna og ungmenna til sýnis, bæjarbúum til upplyftingar og yndisauka. Nýráðinn kynningarfulltrúi iðnhönnunar Árdís Olgerisdóttir mun verða tengiliður við fyrirtæki og stofnanir bæjarins.

Kallað eftir hugmyndum

Um þessar mundir er hugmyndavinna í fullum gangi og gert er ráð fyrir að dagskráin verði tilbúin fljótlega. Framkvæmdanefndin kallar eftir hugmyndum frá bæjarbúum um verkefni/dagskráratriði sem ættu vel við á listadögunum í vor eða upplýsingar um unga og efnilega listanema/hönnuði sem vilja sýna verk sín eða koma fram á listadögum. Nánari upplýsingar um listadaga veitir Vilhjálmur Kári Haraldsson í síma 525 8500, netfang: vilhjalmurha@gardabaer.is.