18. jan. 2008

Grunnskólakennarar fá 110.000 króna eingreiðslu

Garaskli
  • Séð yfir Garðabæ


Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær, 17. janúar, tillögu að aðgerðum í starfsmannamálum sem miðar fyrst og fremst að því að tryggja stöðugleika í grunnskólum bæjarins en nær einnig til allra starfsmanna bæjarins.

Tillagan felur í sér að allir grunnskólakennarar sem eru í starfi í dag og verða í starfi 1. maí 2008 fá eingreiðslu þann 1. maí sem nemur 110.000 krónum.

Allir aðrir starfsmenn grunnskóla fá mánaðarlega viðbótargreiðslu að fjárhæð 10.000 kr. tímabilið 1. janúar til 30. nóvember 2008.  Áætlaður kostnaður við þessar aðgerðir er samanlagður 24,8 milljónir króna.

Allir starfsmenn Garðabæjar fá greiðslu að fjárhæð 16.000 kr., miðað við fullt starf, sem hvatapeninga til íþróttaiðkunar. 

Þá var samþykkt 2.500.000 króna fjárveiting til stofnana bæjarins til heilsueflingar starfsmanna. Stofnanir sem staðfesta þátttöku í sérstakri heilsueflingu starfsmanna fá fjárveitingu til að bjóða starfsmönnum sínum heilsufarsmælingar, ráðgjöf og námskeið sérfræðinga á sviði heilsueflingar og vinnuverndar. 

Í tillögunni kemur fram að stjórnendur Garðabæjar hafi á undanförnum árum lagt sig fram við að gera Garðabæ að eftirsóknarverðum vinnustað með bættum kjörum og aðstöðu starfsmanna. Nýlega hafi bæjarstjórn samþykkt viðbótarfjárveitingu til starfsmannamálum í leikskólum og því sé nú horft til grunnskólanna.

Frá Garðaskóla

Fundargerð bæjarstjórnar frá 17. janúar 2008.