14. des. 2007

Vefur Garðabæjar kemur vel út í úttekt á opinberum vefjum 2007

Vefttekt 2007
  • Séð yfir Garðabæ

Vefur Garðabæjar kemur vel út í úttekt á opinberum vefjum sem fyrirtækið Sjá ehf. gerði á þessu ári fyrir forsætisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Þetta er í annað sinn sem slík úttekt er gerð en fyrsta úttektin var gerð árið 2005. Í úttektinni var lagt mat á alls 262 vefi, þarf af 68 vefi sveitarfélaga og 194 vefi ríkisstofnana. Í úttektinni er lagt mat á innihald, nytsemi, aðgengi og þjónustu vefjanna, allt eftir tilteknum gátlistum.

Þegar horft er til sveitarfélaga er vefur Garðabæjar í 5. sæti þegar tekið er meðaltal allra liðanna fjögurra.

Garðabær er í 2.-3. sæti sveitarfélaga þegar horft er til innihalds, í 2.-12 sæti undir liðnum nytsemi og einn af 8 vefjum sveitarfélaga sem fá fullt hús stiga varðandi þjónustu.

Vinna við nýjan vef fyrir Garðabæ stendur nú yfir og er í henni sérstaklega hugað að aðgengismálum en samkvæmt úttektinni þarf helst að bæta þann þátt á vef Garðabæjar. Aðgengismál snúa að því að gera efni vefsins aðgengilegt fyrir þá sem eiga erfitt með að nýta sér ritaðan texta, þ.á.m. sjónskerta, blinda og lesblinda. 

Niðurstöður úttektarinnar voru kynntar á fundi í gær 13. desember. Myndirnar sem hér fylgja eru úr skýrslu Sjá um niðurstöðurnar. Hægt er að nálgast skýrsluna og allar niðurstöður úttektarinnar á vefnum www.utvefur.is.