8. nóv. 2013

Samstaða gegn einelti

Skólar Garðabæjar tóku þátt í baráttudegi gegn einelti sem haldinn er í dag 8. nóvember
  • Séð yfir Garðabæ

Skólar Garðabæjar tóku þátt í baráttudegi gegn einelti sem haldinn er í dag 8. nóvember.

Í Garðaskóla var blár dagur og bæði nemendur og starfsfólk mætti bláklætt í skólann. Umræður fóru fram í umsjónarbekkjum og að þeim loknum unnu nemendur í hópum að því að semja slagorð gegn einelti. Að lokum söfnuðust allir saman í miðrými skólans, hengdu slagorðin sín upp og skoðuðu afrakstur annarra hópa. Myndir frá deginum eru á vef Garðaskóla.

Í Flataskóla var í tilefni dagsins rætt um einelti í morgunsamverunni, hvað það væri og hvernig ætti að gæta þess að leggja ekki aðra í einelti eða taka þátt í því. Til að sýna samstöðu voru allir hvattir til að koma í rauðu þennan dag og var gaman að sjá hve margir tóku áskoruninni enda var salurinn rauður yfir að líta. Sjá á vef Flataskóla

Í Álftanesskóla var í gærkvöldi haldinn fræðslu- og kynningarfundur um örugga netnotkun barna og unglinga en þar var einnig kynnt ný eineltisáætlun skólans. Fulltrúi á vegum SAFT-samtakanna (Samfélag, fjölskylda og tækni) hélt fyrirlestur á fundinum þar sem hann fjallaði m.a. um siðferði á Netinu, rafrænt einelti, netboðorðin, félagsnetsíður, friðhelgi einkalífsins og netvini.