5. des. 2007

Öll 16 mánaða börn fengu leikskólavist haustið 2006

Öll 16 mánaða börn fengu leikskólavist haustið 2006
  • Séð yfir Garðabæ


Öll börn sem náð höfðu 16 mánaða aldri fengu vist í leikskóla haustið 2006. Alls voru leikskólabörnin 596 veturinn 2006-2007 og hafði þeim fjölgað um 67 eða 10% frá árinu áður. Barngildin voru 771. Í nýrri ársskýrslu leikskóla Garðabæjar 2006-2007 kemur fram að þann vetur voru 52% barna í leikskólum sem reknir eru af öðrum en Garðabæ og er það í fyrsta skiptið sem það á við um meira en helming leikskólabarna í bænum.

Frá Kirkjubóli

Nýir leikskólar

Tveir leikskólar hófu störf veturinn 2007-2007, Smábarnaleikskólinn við Ránargrund fyrir börn frá 9-18 mánaða og Montessori setrið sem fékk aðstöðu í Sjálandsskóla. Leikskólinn Sjáland flutti úr Sjálandsskóla í eigið húsnæði við Vesturbrú.

Ánægja með starfið

Rafræn viðhorfskönnun var gerð á vegum fræðslusviðs Garðabæjar á viðhorfum foreldra barna í leikskólum Garðabæjar í mars 2007. Almenn ánægja var með störf leikskólanna og töldu 97% forelda að barni sínu liði mjög vel eða vel í leikskólanum. Fram kom að bæta þyrfti upplýsingastreymi til foreldra og virkni heimasíðna leikskólanna.

Hátt hlutfall fagfólks

Stöðugildi við leikskóla Garðabæjar voru 68,32 og hlutfall fagfólks um 53% sem vel yfir landsmeðaltali sem er 36%.

Sem dæmi um þróunar- og nýbreytnistarf á skólaárinu má nefna samstarfsverkefnið Leikfélagar, ráðstefnu um þjónustu við börn undir leikskólaaldri sem haldin var í Flataskóla og verkefni Lýðheilsustöðvar Allt hefur áhrif – einkum við sjálf.

Aðstöðugreiðslur til dagforeldra

9 dagforeldrar eru við störf í Garðabæ með 43 börn í dvöl hjá sér og starfa þeir samkvæmt þjónustusamningi við Garðabæ og foreldra. Aðstaða dagforeldra var tekin út í samstarfi við Forvarnahús og í kjölfarið greiddar út aðstöðugreiðslur að upphæð kr. 50.000 með hverju barni til að bæta öryggi þeirra og aðbúnað hjá dagforeldrum.

Leikskólunum var við haldið bæði innanhúss sem og lóðum og má þar helst nefna þriðja áfanga lóðar Hæðarbóls og endurnýjun á hluta lóðar Lundabóls. Einnig var aðstaða starfsfólks Kirkjubóls til undirbúnings bætt.

Að meðaltali var kostnaður við rekstur hvers barngildis kr 730.838 á árinu eða kr. 60.903 á mánuði fyrir utan framlag foreldra.

www.gardabaer.is/leikskolar