28. nóv. 2007

Urriðaholt hlýtur alþjóðleg lífsgæðaverðlaun

Urriðaholt hlýtur alþjóðleg lífsgæðaverðlaun
  • Séð yfir Garðabæ

Skipulag Urriðaholts í Garðabæ hlaut 2. sætið í lokaúrslitum alþjóðlegu lífsgæðaverðlaunanna, LivCom, sem afhent voru í London í vikunni.

Auka lífsgæði í borgarsamfélögum

LivCom verðlaunin eru veitt með stuðningi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og eru einu verðlaun sinnar tegundar í heiminum. Þau hafa verið veitt árlega frá 1997 og er markmið þeirra að auka lífsgæði íbúa í borgarsamfélögum. Um leið eru þau vettvangur fyrir miðlun hugmynda og upplýsinga á þessu sviði. Rúmlega 50 lönd taka að jafnaði þátt í samkeppni um LivCom verðlaunin, en þau eru veitt í þremur flokkum.

Valin úr 130 tilnefningum

Skipulag Urriðaholts komst í lokaúrslit Livcom ásamt 18 öðrum verkefnum á sviði uppbyggingar sem hafa sjálfbærni og umhverfisvitund að leiðarljósi. Þessi 18 verkefni voru valin úr 130 tilnefningum sem bárust til LivCom.

Urriðaholt hlaut 2. sætið í sínum flokki vegna áherslu skipulagsins á lífsgæði með fjölbreyttri byggð, áherslu á samfélagsumgjörð, góða nýtingu landrýmis, samspil byggðar og verndun umhverfis. Markmið skipulags Urriðaholts er að skapa áhugavert samfélag, sem öruggt og aðlaðandi er að búa í og býður upp á góða aðstöðu til útivistar.

Verðlaunaskjalið

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna er bakhjarl

Livcom er stytting á fullu nafni samtakanna Livable Communities, en það eru virt samtök á þessu sviði sem standa að baki Livcom verðlaununum. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna UNEP er bakhjarl verðlaunaveitingarinnar. Árlega eru Livcom verðlaunin veitt þeim sveitarfélögum og verkefnum á sviði skipulags- og samfélagsmála, sem stefna að bættum lífsgæðum innan bæja og borga. Þetta eru einu samtökin sem veita verðlaun á þessu sviði.

Á vefsíðu LivCom verðlaunanna er skipulag Urriðaholts sagt vera hlið á milli borgarumhverfis og íslenskrar náttúru þar sem Urriðavatn er í aðalhlutverki.

Nýsköpun í þágu lífsgæða

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar sagði af þessu tilefni: "Frá upphafi skipulagsferilsins í Urriðaholti hefur verið lögð áhersla á nýsköpun og beitingu nýjustu tæknilausna til að skapa samfélag sem hefur sjálfbærni og lífsgæði íbúa að leiðarljósi. Þetta endurspeglast í áherslu á verndun náttúrunnar, umhverfisvænar lausnir og uppbyggingu fjölbreytts og lifandi samfélags."

Hluti hópsins frá Urriðaholti ehf. og Garðabæ