21. nóv. 2007

Forseti Íslands setti forvarnadaginn í Garðaskóla

Forseti Íslands setti forvarnadaginn í Garðaskóla
  • Séð yfir Garðabæ


Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson heimsótti Garðaskóla í morgun og setti forvarnadaginn formlega, en hann er haldinn í öllum grunnskólum landsins í dag. Ólafur E. Rafnsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands heimsótti Garðaskóla einnig við sama tækifæri, svo og fulltrúar Stjörnunnar, fyrir hönd UMFÍ og fulltrúar Bandalags íslenskra skáta.

Forseti Íslands í Garðaskóla á forvarnadeginum

Í sérhverjum grunnskóla landsins er í dag dagskrá um þau þrjú heilræði sem rannsóknir sýna að duga best sem forvarnir gegn fíkniefnum en þau eru:

  • Unglingar sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna
  • Ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf falla mun síður fyrir fíkniefnum
  • Því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau verði fíkniefnum að bráð

    Nemendur vinna  í umræðuhópum og svara spurningum um hvert þessara þriggja atriða. Svörin verða grundvöllur að skýrslu sem kynnt verður víða á fyrstu mánuðum næsta árs. Einnig munu nemendur taka þátt í ratleik á netinu sem aðstandendur forvarnadagsins hafa efnt til.

    Í Garðaskóla hafa nemendur 9. bekkja unnið verkefni sem tengjast forvarnadeginum í lífsleiknitímum að undanförnu.

    Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands og eru aðstandendur hans Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Banda­lag íslenskra skáta. Hann er byggður á rannsóknum sem fram hafa farið við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.