16. nóv. 2007

Afmælisveisla í Hofsstaðaskóla - Opið hús

Afmælisveisla í Hofsstaðaskóla - Opið hús
  • Séð yfir Garðabæ


Föstudaginn 16. nóvember verður afmælisveisla í Hofsstaðaskóla og opið hús í tilefni af 30 ára afmæli skólans.

Þemadagar stóðu yfir í Hofsstaðaskóla vikuna 6. – 9. nóvember. Þá var afmælisveislan undirbúin. Nemendur unnu saman í hópum, þvert á árganga, að verkefnum tengdum hátíðinni og verður afraksturinn til sýnis í afmælisveislunni.

Dagskráin hefst kl. 13:30. Þá munu fulltrúar frá Landvernd afhenda skólanum Grænfánann. Með því hefur skólinn náð markmiði sem nemendur og starfsmenn hafa unnið markvisst að undanfarna vetur. Fáninn verður afhentur við hátíðlega athöfn og dreginn að húni fyrir utan skólann. Að því loknu er skóladegi nemenda lokið og gestum gefst færi á að ganga um skólann, skoða verk nemenda og fylgjast með skemmtiatriðum á sal.

Á opna húsinu verður starfrækt kaffihús sem nemendur undirbjuggu á þemadögum en þar verður selt kaffi, skúffukökur og tebollur sem nemendur sáu um að baka.

Starfsfólk Hofsstaðaskóla er mjög stolt af nemendum skólans sem unnu mjög gott starf á þemadögum. Eldri nemendur skólans gerðust leiðbeinendur og aðstoðuðu yngri nemendur í hópastarfinu af miklum myndarskap.

Dagskrá:

13:30 Ávarp skólastjóra Margrétar Harðardóttur
Ávarp Páll Hilmarsson
Ávarp fulltrúa Landverndar
Nemendur úr umhverfisnefnd draga fánann að húni
14:15 Tískusýning (sýndur verður klæðnaður frá 1977-2007)
14:30 Tónlistaratriði (ungir nemendur leika á hljóðfæri sem þeir gerðu sjálfir)
14:45 Fimleikaatriði
15:15 Þemadagar í máli og myndum (myndband sem nemendur unnu)

Kynnir: Hafdís Bára Kristmundsdóttir aðstoðarskólastjóri

Afmæli Hofsstaðaskóla verður fagnað á fjölbreyttan hátt í allan vetur.