15. nóv. 2007

Lifandi silfrið - Sýning á skartgripum Ásdísar Sveinsdóttur Thoroddsen í Hönnunarsafni Íslands

Lifandi silfrið - Sýning á skartgripum Ásdísar Sveinsdóttur Thoroddsen í Hönnunarsafni Íslands
  • Séð yfir Garðabæ

Sýning á úrvali skartgripa eftir Ásdísi Sveinsdóttur Thoroddsen gullsmið (1920-1992) verður opnuð í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg laugardaginn 17. nóvember.

Í tilkynningu frá Hönnunarsafninu segir að Ásdís hafi um margt verið óvenjulegur listamaður á sínu sviði. Sögulega séð brúi hún bilið milli fágaðrar og mjög svo hefðbundinnar gull-og silfursmíði Leifs Kaldal, sem var meistari hennar og hins frjálslega og áferðarríka nútímaskarts þeirra Jóhannesar Jóhannessonar og Jens Guðjónssonar. Það geri Ásdís m.a. með notkun ýmiss konar efniviðar sem ekki hafði áður sést í íslensku skarti, óslípaðra íslenskra náttúrusteina svo og lífrænna efna, trjáviðar, fuglsklóa, steinbítsroðs o.s.frv, svo og með óvenjulegu formskyni sínu.

Í samvinnu við börn Ásdísar hefur Hönnunarsafnið sett saman sýningu með um 50 skartgripum frá öllum tímabilum á starfsævi hennar, allt frá öndverðum sjötta áratugnum til níunda áratugarins, hálsmen fyrir konur og karla, armbönd, hringa, nælur o.fl.

Í tilefni af sýningunni hefur safnið einnig gefið út vandað kynningarrit með fjölda ljósmynda, ýmiss konar heimildum og úttekt á skartgripahönnun Ásdísar eftir Aðalstein Ingólfsson. Sýningarstjórar eru Aðalsteinn Ingólfsson og Sigrún Edda Eðvarðsdóttir.

Sýningin er styrkt af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og IKEA á Íslandi.

Sýningin á skartgripum Ásdísar stendur yfir í sýningarsal Hönnunarsafnsins, Garðatorgi 7, frá 17. nóvember til 16. desember 2007 og er opin kl. 14-18 alla daga nema mánudaga.

Skartgripur af sýningunni

Skartgripur af sýningunni

Skartgripur af sýningunni