15. nóv. 2007

Jónasartorg í Garðabæ

Jónasartorg í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Jónas HallgrímssonBæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt að torgið sem nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands rís við í Urriðaholti í Garðabæ verði nefnt Jónasartorg. Stefán Snær Konráðsson, formaður skipulagsnefndar lagði fram tillögu þess efnis á fundi bæjarstjórnar í dag. Tilefnið er 200 ára fæðingarafmæli þjóðskáldsins og náttúrufræðingsins Jónasar Hallgrímssonar en hann hefur stundum verið kallaður fyrsti íslenski náttúrfræðingurinn.

Nýlega var ákveðið að reist verði nýbygging í Urriðaholti sem hýsa á Náttúrufræðistofnun Íslands sem flyst þá frá Hlemmi í Reykjavík til Garðabæjar. Húsið rís við torg sem rammaskipulag Urriðaholts og tillögur að deiliskipulagi gera ráð fyrir neðst við Urriðaholtsbraut. Torgið verður á fjölförnum stað og því er hús Náttúrfræðistofnunar afar vel staðsett í holtinu. Torgið er þess því vel verðugt að vera kennt við Jónas Hallgrímsson. Með nafngiftinni er tengslum Jónasar við náttúruvísindi haldið á lofti þótt vissulega sé hann þekktari sem þjóðskáld.

Í tillögunni sem bæjarstjórn samþykkti samhljóða segir að fram til þessa hafi engin gata, vegur, stræti eða torg á Íslandi verið kennt við Jónas Hallgrímsson og megi segja að það sé orðið tímabært með tilliti til stöðu Jónasar í íslenskri þjóðarvitund. "Á þessum tímamótum vill bæjarstjórn því heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar sem þjóðskálds og náttúrufræðings og nefna torgið Jónasartorg."

Mynd sem sýnir staðsetningu Jónasartorgs í Urriðaholti