2. nóv. 2007

Unnið samkvæmt viðbragðsáætlun við hreinsun á byggingarsvæði í Hraunsholti eystra

Unnið samkvæmt viðbragðsáætlun við hreinsun á byggingarsvæði í Hraunsholti eystra
  • Séð yfir Garðabæ


Héraðsdýralæknir, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinna nú að hreinsun á byggingarsvæði í Hraunsholti eystra vegna gruns um miltisbrandssmit eftir að bein fundust við framkvæmdir á svæðinu í gær. Rétt er að taka fram að engin hætta er á ferðum enda er fyrirfram gerðri viðbragðsáætlun og tilmælum sóttvarnalæknis framfylgt í hvívetna.

Eins og fram kemur í deiliskipulagsskilmálum fyrir svæðið var vitað um að hugsanlega væri urðuð á svæðinu ein eða tvær kýr sem drápust vegna miltisbrands á árunum 1940-1942. Þegar sá grunur kom fram var búin til viðbragsáætlun í samvinnu við sóttvarnalækni og héraðsdýralækni og er nú unnið samkvæmt henni. Hræið verður grafið upp og brennt í sorpbrennslunni í Keflavík og svæðið sótthreinsað að því loknu.