26. okt. 2007

Tónlistarveisla í skammdeginu 8. og 15. nóvember

Tónlistarveisla í skammdeginu 8. og 15. nóvember
  • Séð yfir Garðabæ


Sprengjuhöllin og Andrea Gylfadóttir ásamt tríói Björns Thoroddsen troða upp í Tónlistarveislu í skammdeginu í ár.

Tónlistarveislan er nú haldin sjötta árið í röð á Garðatorgi í Garðabæ og er hún orðin að föstum lið í blómlegu menningarlífi Garðbæinga. Aðsókn að tónleikunum hefur alltaf verið mjög góð enda hefur verið boðið upp á skemmtilega og metnaðarfulla dagskrá. Að þessu sinni verða haldnir tvennir tónleikar, fimmtudagskvöldin 8. nóvember og 15. nóvember.

8. nóvember mun hin vinsæla hljómsveit Sprengjuhöllin stíga á stokk og spila lög af nýútkomnum disk sínum, Tímunum okkar. Áður en Sprengjuhöllin stígur á svið mun Karl Ágúst Úlfsson bæjarlistamaður Garðabæjar 2007 koma fram og stjórna “trommuhring”.

15. nóvember mætir Andrea Gylfadóttir ásamt tríói Björns Thoroddsen og munu þau flytja alþýðusöngva í léttum djassdúr af diskunum Vorvindum og Vorvísum.

Það er menningar- og safnanefnd Garðabæjar sem býður til þessarar tónlistarveislu. Allir eru velkomnir á Garðatorg þessi kvöld. Aðgangur er ókeypis.