16. okt. 2007

Húsgögn eftir Sigurð Gústafsson í Hönnunarsafninu

Húsgögn eftir Sigurð Gústafsson í Hönnunarsafninu
  • Séð yfir Garðabæ


Síðastliðinn laugardag var opnuð í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ sýning á völdum húsgögnum eftir Sigurð Gústafsson, arkitekt og húsgagnahönnuð.

Aðalsteinn Ingólfsson, forstöðumaður Hönnunarsafnsins segir að Sigurður hafi hlotið meiri meðbyr á erlendri grundu, einkum á Norðurlöndunum, en nokkur annar íslenskur hönnuður. "Þrátt fyrir að Sigurður hafi einungis stundað húsgagnahönnun í röskan áratug hefur hann náð mjög góðum árangri og m.a. fengið tvö helstu hönnunarverðlaun á Norðurlöndum, Bruno Mathsson verðlaunin sænsku (2001) og Söderbergs-verðlaunin (2003) en þau þykja meðal markverðustu hönnunarverðlauna sem veitt eru í alþjóðlegum hönnunarheimi."

Sænski húsgagnaframleiðandinn Källemo hefur framleitt megnið af húsbúnaði Sigurðar og sýnt um víða veröld. "Húsgögn Sigurðar hafa verið eftirsótt í Svíþjóð af ýmsu þekktu fólki, skemmtikröftum, listamönnum og stjórnmálamönnum. Til að mynda eiga annar Abba-drengjanna, Björn Ulvaeus og fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, Göran Persson, báðir stóla eftir Sigurð," segir Aðalsteinn.

Heiti sýningarinnar er Uppbygging, afbygging en það vísar til tveggja stefna sem Sigurður hefur tileinkað sér. Þeir sem tileinka sér hina fyrrnefndu kappkosta að vinna með nútímalegan efnivið, stál, gler og plast, láréttar og lóðréttar áherslur og frumliti. Síðarnefnda stefnan snýr á hinn bóginn að uppbroti hlutanna, óreglulegri byggingu þeirra og árekstrum ólíkra forma. "Sigurði tekst að steypa þessu tvennu saman í mörgum húsgagna sinna, þannig að þau virðast vera hvorttveggja í senn, veikburða og rammgerð, stöðug og óstöðug," segir Aðalsteinn.

Stjórnarformaður Hönnunarsafnsins, Erling Ásgeirsson, opnaði sýninguna og kynnti um leið samkeppni þá sem nú fer fram um nýja byggingu fyrir safnið, sem staðsett verður við Garðatorg.

Sýningin á húsgögnum Sigurðar Gústafssonar er opin alla daga nema mánudaga kl. 14-18 og lýkur þann 11. nóvember n.k.