15. okt. 2007

Húsfyllir á vel heppnaðri Haustvöku

Húsfyllir á vel heppnaðri Haustvöku
  • Séð yfir Garðabæ


Kvennakór Garðabæjar og menningar- og safnanefnd bæjarins stóðu saman að Haustvöku í Kirkjuhvoli 11. október sl.

Haustvakan er hluti af þriggja ára samstarfssamningi sem kórinn gerði við Garðabæ sl. ár en þetta er í sjöunda sinn sem kvennakórinn býður upp á þessa menningarhátíð. Haustvakan hefur frá upphafi verið vel sótt og heppnast prýðilega. Engin undantekning var þar á nú í ár, salurinn var fullsetinn og mikil stemmning í mannskapnum. Á boðstólum voru léttar veitingar að hætti kórkvenna.

Kvennakórinn á haustvöku 2007

Það besta úr menningarlífinu

Venja er á Haustvöku að bjóða bæjarbúum upp á það besta sem býðst í menningarlífi Garðabæjar hverju sinni. Hefð er komin fyrir því að Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur haldi utan um dagskrána og gerði hún það með glæsibrag líkt og áður. Einnig hefur skapast sú hefð að bæjarlistamaður Garðabæjar komi fram og í ár var það Karl Ágúst Úlfsson leikari sem las gestum pistilinn. Karlmennskan var inntak frásagnar Karls Ágústs en hann taldi það nauðsynlegt til að skapa smá mótvægi við allan kvennafansinn sem heilum kvennakór fylgir!

Ungir listamenn slógu í gegn

Frá upphafi hefur eitt af markmiðum Haustvökunnar verið að leyfa unga listafólkinu í bænum að njóta sín. Það er meðal annars gert með samstarfi við Tónlistarskóla Garðabæjar. Glæsilegur fulltrúi skólans að þessu sinni var Berglind Bergmann nemandi í píanóleik en hún lék listilega vel fyrir gesti. Ekki síður glæsilegar voru Alma Guðmundsdóttir og Klara Ósk Elíasdóttir úr sönghópnum Nylon en þær sungu nokkur lög við píanóleik Kristjáns Sturlu Bjarnasonar nemanda í FÍH. Þess má til gamans geta að Alma á móður og systur í Kvennakór Garðabæjar og bróðir hennar er höfundur tónverks sem kórinn hyggst flytja á tónleikum í Kaupmannahöfn 27. október nk.

Íslensk sönglög við ljóð Jónasar

Kvennakór Garðabæjar tróð að sjálfsögðu upp undir stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur við píanóleik Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem starfar með kórnum um þessar mundir. Efnisskráin smanstóð að mestu af íslenskum sönglögum við ljóð Jónasar Hallgrímssonar í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli skáldsins. Þau verða einnig flutt í söngferð kórsins til Kaupmannahafnar 25.-28. október nk.

Kvennakór Garðabæjar heldur uppi glæsilegri heimasíðu, www.kvennakor.is þar sem lesa má um starfsemi kórsins. Þar má m.a. finna uppskriftina að döðlukonfektinu sem var meðal veitinga á kvöldinu og vakti mikla lukku. Endilega kíkið á síðuna og lesið meira um þennan kraftmikla kór sem svo sannarlega hefur sett svip sinn á menningarlíf bæjarins frá stofnun hans, árið 2000.