10. okt. 2007

Samkeppni hafin um Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ

Samkeppni hafin um Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær hefur auglýst samkeppni um hönnun á húsnæði fyrir Hönnunarsafn Íslands og nánasta umhverfi. Hönnunarsafnið verður á Garðatorgi og verður það veigamikill hluti af nýjum miðbæ Garðabæjar.

Í keppnislýsingu segir að megin­mark­mið ­samkeppninnar sé að leita að metnaðarfullri og skapandi umgjörð um íslenska hönnun sem endurspegli það besta á sviði byggingarlistar í dag.

Við mat á lausnum mun dómnefnd leggja áherslu á eftirfarandi atriði:

· Heildarlausn húsnæðisins skili vandaðri og góðri byggingarlist sem hæfi starfseminni.

· Yfirbragð hússins marki sérstöðu í miðbæ Garðabæjar.

· Snjallar lausnir með vel ígrunduðum innbyrðis tengslum, m.a. millli hæða, athyglisverðum rýmum í góðum hlutföllum ásamt markvissri dagsbirtunotkun.

· Tengsl við miðbæjartorg þannig að aðkoma og almenningsrými efli mannlíf á svæðinu.

· Efnisval sé ákjósanlegt með tilliti til endingar, umhverfis- og vistfræðiþátta.

· Hagkvæma byggingu sem uppfylli kröfur forsagnar um stærðir.

Samkeppnin er opin framkvæmdasamkeppni þar sem Garðabær leitar eftir höfundi og tillögu til útfærslu. Höfundur fyrstu verðlaunatillögu verður ráðinn arkitekt hússins ef viðunandi samkomulag næst milli hans og bæjarins.

Keppnislýsingin er aðgengileg á vef Garðabæjar á slóðinni www.gardabaer.is/samkeppni .

Tillögum á að skila í síðasta lagi 15. janúar 2008 og áætlað er að dóm­nefnd ljúki störfum fyrir 15. febrúar 2008.

Haldin verður sýning á öllum keppnis­til­lögum, sem upp­fylla skil­yrði keppninnar, við fyrsta tækifæri eftir að dómnefnd hefur lokið störfum.

Dómnefndina skipa: Erling Ásgeirsson formaður, Laufey Jóhannsdóttir, Halldóra Vífilsdóttir, Halldóra Bragadóttir og Hans-Olav Andersen.

Myndin var tekin við undirritun keppnislýsingarinnar á bæjarskrifstofum Garðabæjar, þriðjudaginn 9. október 2007.

Mynd frá undirritun keppnislýsingar

Á myndinni eru frá vinstri: Halldóra Vífilsdóttir, Erling Ásgeirsson,
Ólafur Sigurðsson, formaður samkeppnisnefndar A.Í., Gunnar Einarsson
bæjarstjóri, Halldóra Bragadóttir og Hans-Olav Andersen.