8. okt. 2007

Ný þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í Jónshúsi

Ný þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í Jónshúsi
  • Séð yfir Garðabæ


Ný þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í Garðabæ í Jónshúsi, Strikinu 6 á Sjálandi var formlega opnuð að viðstöddu miklu fjölmenni föstudaginn 5. október sl. Í Jónshúsi fær félagsstarf eldri borgara í Garðabæ glæsilegar nýjar höfuðstöðvar en einnig verður áfram boðið upp á félagsstarf annars staðar í bænum.

Þjónustumiðstöðin í Jónshúsi er 508 m2 og samanstendur af aðstöðu fyrir félagsstarf, matsal og framreiðslueldhúsi. Að auki verður í húsinu hárgreiðslustofa og fótsnyrtistofa. Hægt verður að kaupa hádegisverð í matsalnum innan skamms tíma. Með tilkomu Jónshúss flyst miðstöð þjónustu við eldri borgara í Garðabæ á Sjálandið og um leið verður hægt að efla hana í nýju og fallegu húsnæði. Jónshús verður opið allt árið.

Jónshús er þyrping sex húsa við Strikið á Sjálandi í Garðabæ. Í þeim eru 134 íbúðir fyrir fólk 60 ára og eldri. Þjónustumiðstöðin er á fyrstu hæð í miðri þyrpingunni en þangað eru allir eldri borgarar alls staðar að úr Garðabæ velkomnir.

Arkitekt hússins er Guðmundur Gunnlaugsson. Byggingafélag Gylfa og Gunnars sá um byggingu hússins.

Dagskrá félagsstarfs eldri borgara er hægt að nálgast á vef Garðabæjar

Gunnar Einarsson bæjarstjóri opnar húsið formlega

Gunnar Einarsson bæjarstjóri tekur húsið formlega
í notkun.

Garðakórinn söng fyrir gesti við opnunina

Garðakórinn söng fyrir gesti.