18. sep. 2007

Nýjungar í þjónustu við íbúa kynntar í heimsókn frá Finnlandi

Nýjungar í þjónustu við íbúa kynntar í heimsókn frá Finnlandi
  • Séð yfir Garðabæ


Janne Mustonen sem er verkefnastjóri hjá borginni Oulu í Finnlandi heimsótti Garðabæ dagana 13. og 14. september sl. Borgin Oulu er þekkt fyrir að vera framarlega á sviði rafrænnar stjórnsýslu og annarra tækninýjunga í þágu borgaranna.

Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna fyrir starfsmönnum Garðabæjar ýmsar nýjungar sem Oulu hefur innleitt í þjónustu við íbúa sína og um leið að kynnast því sem Garðabær hefur unnið að á undanförnum árum á sviði rafrænnar þjónustu. Áhugi er fyrir því að finna grundvöll fyrir samstarfi sveitarfélaganna tveggja hvað varðar þróun opinberrar þjónustu.

Heimabær NOKIA 

Oulu er heimabær fyrirtækisins NOKIA og hefur borgin unnið að ýmsum þróunarverkefnum í samstarfi við NOKIA og önnur tæknifyrirtæki. Borgin hefur sett sér það markmið að þar verði veitt besta/nútímalegasta opinbera þjónustan í Finnlandi árið 2015. Samstarf við tæknifyrirtæki um þróun nýjunga í þjónustu er ein af þeim leiðum sem Oulu fer í því skyni.

Þráðlaust net og farsímatækni

Mustonen greindi m.a. frá því hvernig Oulu borg hefur byggt upp þráðlaust net mjög víða um borgina en notkun þess er íbúum algerlega að kostnaðarlausu, frá verkefnum sem miða að því að nýta nýja tækni við farsíma til að veita ýmsa þjónustu o..fl.

Mikla athygli vakti tilraunaverkefni sem borgin hefur unnið að á sviði þjónustu við eldri borgara sem gerir þeim kleift að panta sér þjónustu með því að nýta tæknina á mjög aðgengilegan hátt.

Tengsl á milli sveitarfélaganna komust á, á evrópsku ráðstefnunni Eisco sem haldin var í Finnlandi í vor. Þar var Minn Garðabær kynntur svo og verkefni frá borginni Oulu og myndaðist gagnkvæmur áhugi á að læra af því sem hinn aðilinn hefur fram að færa.

Janne Mustonen frá Oulu

Janne Mustonen frá borginni Oulu í Finnlandi fræðir
starfsfólk Garðabæjar um þróunarverkefni á sviði
þjónustu við íbúa og samstarfsaðila borgarinnar um slík
verkefni.