10. sep. 2007

Framhaldslíf hlutanna - sýning um vistvæna hönnun í Hönnunarsafni Íslands

Framhaldslíf hlutanna - sýning um vistvæna hönnun í Hönnunarsafni Íslands
  • Séð yfir Garðabæ


Sýning á vistvænni hönnun í eigu Hönnunarsafns Íslands og nokkurra fyrirtækja var opnuð í sýningarsal safnsins við Garðatorg um helgina.

Við val á hlutum á sýninguna var haft að leiðarljósi að framleiðsla þeirra væri vistvæn og/eða þeir sýndu fram á hvernig endurvinnsla getur aukið á virði og notagildi efna.

Á sýningunni er að finna ýmiss “íkon” sjálfbærrar hönnunar, t.a.m. nytjahluti frá Droog Design og Tord Boontje, víðfrægan “Favela” stól hinna brasilísku Campana-bræðra en einnig íslenska hönnun sem tekur tillit til umhverfisþátta. 

Einnig er til sýnis vistvæn líkkista frá breska fyrirtækinu Vaccari, gólf og veggflísar úr glerkurli úr sjónvarpsskermum frá Finnlandi og bíllinn Prius frá Toyota.

Í formála sýningarskrár segir sýningarstjóri, Aðalsteinn Ingólfsson, meðal annars: “Þótt ekki sé hún stór að vöxtum höfum við trú á að sýningin...nái að koma á framfæri þeim boðskap að varla sé lengur hægt að ræða fagurfræði og nytsemi hönnunar án þess að taka tillit til þeirra áhrifa sem hún hefur á umhverfi sitt..."

Í samræmi við “þema” sýningarinnar hefur henni verið búin umgjörð úr endurvinnanlegum viðarplötum, en Massimo Santanicchia arkitekt er höfundur hennar. Sýningarskrá er einnig prentuð á endurunninn pappír.

Sýningin í sal Hönnunarsafns Íslands við Garðatorg 7 er opin alla daga nema mánudaga kl. 14-18.

Sýningunni lýkur 30. september.

Mynd frá opnun sýningarinnar

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra opnaði
sýninguna. Hér er hún ásamt Aðalsteini Ingólfssyni,
forstöðumanni Hönnunarsafns Íslands.

Mynd frá opnun sýningarinnar

Frá sýningunni.