10. ágú. 2007

Ávarp garðeigandans

Birkis 43
  • Séð yfir Garðabæ


Við afhendingu viðurkenninga fyrir snyrtilegt umhverfi 2007 sem fram fór á Garðatorgi 1. ágúst 2007, steig  einn garðeigendanna í pontu og þakkaði fyrir sig á skemmtilegan hátt. Það var Guðmundur Sigurðsson í Birkiási 43 sem átti þetta góða innlegg í athöfnina og hefur hann gefið leyfi til að birta það hér á vef Garðabæjar.

Ávarp garðeigandans 2007.

"Viðurkenningu sem þessa ber að þakka og veit ég að ég mæli fyrir hug okkar allra sem þess njótum. Ég er einn af nýbúum Garðabæjar sem reyndar stefndi hingað fyrir 50 árum og er loksins kominn alla leið og uni mér vel. Þar sem umræðan snýst um garða og gróður ætla ég að rifja upp litla sögu um mat á framtaki ræktenda.

Lítil stúlka, fyrverandi nágranni minn, fékk frænda sinn úr höfuðborginni í heimsókn. Þar sem foreldrar hennar voru miklir ræktendur fór hún með frændann út í garð og full stolti fræddi hún hann um dásemdir þess að rækta allskonar grænmeti, gulrætur og kartöflur að ógleymdum berjarunnunum sem gefa efni í góðar sultur. Frændinn hafði hlustað þögull og kannski áhugalaus á hina ánægðu frænku en segir loks. "Hvernig er það með ykkur hér nennir enginn út í búð?".

Eins og fram hefur komið höfum við hjónin mikið af steinum í garði okkar. Seinna komumst við að því að í kínverskum görðum er grjót ómissandi. Það virkar svo slakandi að tala við steinana, þeir eru þöglir og góðir hlustendur. Að lokum fylgir hér æfagömul Kínversk speki."Ef þú vilt verða hamingjusamur í einn dag kaupirðu flösku af víni, ef þú vilt verða hamingjusamur í heila viku slátrarðu svíni, ef þú vilt láta hamingjuna endast í ár þá giftirðu þig, en ef þú ætlar að öðlast varanlega hamingju þá kaupir þú garð (í GARÐABÆ).  Þökk fyrir okkur."



Guðmundur Sigurðsson Birkiási 43 í
garðinum.