2. ágú. 2007

Viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi 2007

Snyrtilegar lir 07 1
  • Séð yfir Garðabæ

 

Viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir og snyrtilegustu götuna í Garðabæ voru afhentar á Garðatorgi í gær, 1. ágúst. Þeir sem hlutu viðurkenningu fyrir snyrtilegar lóðir við íbúðarhús í ár eru eigendur lóðanna við: Birkiás 43, Hraunás 6, Skrúðás 6, Þrastarnes 6, Lækjarás 2 og Garðaflöt 19.  Snyrtilegasta lóð fyrirtækis eða stofnunar var í ár valin lóð Garðaskóla.  Þá fengu íbúar við Strandveg, sem er fjölmennasta gatan í bænum, viðurkenningu fyrir snyrtilegustu götuna 2007.

 

Umhverfisnefnd gerði tillögu til bæjarráðs um hverjir skyldu hljóta viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi í ár. Umsögn umhverfisnefndar um lóðirnar og götuna fara hér á eftir.

 

Birkiás 43

Rýmið er ekki mikið í litlum garði við endaraðhús, en þar er öllu vel fyrir komið af eigendum, sem hafa auðsjáanlega lagt mikla alúð í gerð garðsins. Sérkenni garðsins er mikill grjótkantur sem rís upp á baklóð á lóðamörkum. Fjölbreyttur gróður er í garðinum og einnig er matjurtareitur inn á milli blómanna. Litríkum smásteinum er raðað í beðin og setja þeir svip á garðinn.

 

Hraunás 6

Mjög fallegur nútímalegur garður, sem gerður er með því markmiði að vera viðhaldsfrír. Rúmgott dvalarsvæði, skjólveggir og matjurta/plöntukassar einkenna garðinn. Útsýni er út yfir Garðahraun.

 

Skrúðás 6

Mjög snyrtilegur garður með fjölbreyttum blómstrandi runna- og trjágróðri. Þetta er nýlegur garður eins og allir garðar í Ásahverfi. Hann er opinn vegfarendum og ber eigendum sínum góðan vitnisburð um snyrtimennsku og smekkvísi.

 

Þrastarnes 6

Sérstaklega snyrtilegur garður. Dvalarsvæði er á framlóð með vöxtulegum runnagróðri. Baklóðin er í miklum halla, þar vekur athygli fagurgræn og vel hirt grasbrekka. Stórvaxin tré og fjölbreytt úrval runna prýðir garðinn.

 

Lækjarás 2

Garðurinn er sérstaklega snyrtilegur með grasflöt og trjágróðri. Sérstaklega vöxtulegir einirunnar eru við innkeyrslu. Á baklóð er lítið leikhús fyrir barnabörnin. Eigendur hafa reist fallega timburgirðingu á lóðamörkum er snýr að Skeiðarás.  

 

Garðaflöt 19

Vel gróinn og fallegur eldri garður með fjölbreyttum runnagróðri. Garðinn hafa nýir eigendur verið að endurgera undanfarin ár. Umhverfisnefnd er ánægð með safnkassa og matjurtareiti í görðum og ekki síst að sjá eldri garða í góðu viðhaldi.

 

Garðaskóli
Nýtt og hlýlegt yfirbragð lóðar Garðaskóla er til fyrirmyndar. Lóðaframkvæmdin hefur tekist vel og gefur ásýnd skólans og Ásgarðs snyrtilegt yfirbragð með nýjum trjábeðum og grasflötum. Ánægjulegt er að sjá hvað nemendur skólans hafa gengið vel um skólalóðina.

 

Strandvegur, snyrtilegasta gatan í Garðabæ 2007
Strandvegur er fjölbýlishúsagata í Sjálandshverfi, sem liggur meðfram ströndinni. Snyrtilegur frágangur lóða og skemmtilegur heildarsvipur götunnar vakti athygli. Strandvegur er að stærstum hluta í 1. áfanga uppbyggingar Sjálands sem verið hefur í umsjón fyrirtækjanna BYGG og Björgunar. Framkvæmdum við uppbyggingu 1. áfanga Sjálands er að ljúka og munu verktakar afhenda bænum götur og opin svæði í þessum áfanga nú í haust.

 

Íbúar Strandvegar tóku sig saman í vor og hreinsuðu fjöruna framan við hverfið í hreinsunarátaki Garðabæjar “snyrtilegasti bærinn”. Slegið var upp grillveislu á eftir, sem bærinn veiti hvatningastyrk til.

 

 

Páll Hilmarsson tilkynnir hverjir hljóta viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi 2007

Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar greinir frá því
hverjir hljóta viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi
árið 2007.

 

Hópmynd af þeim sem hlutu viðurkenningu 

Viðurkenningarhafar ásamt bæjarstjóra, formanni
umhverfisnefndar og forseta bæjarstjórnar.

 

Boðið var upp á kaffi og vöfflur á Garðatorgi

 

Að athöfninni lokinni var boðið upp á kaffi og vöfflur
á Garðatorgi

 

Boðið var upp á kaffi og vöfflur á Garðatorgi


Gestir sátu bæði úti á torginu og inni í Garðabergi enda
fjölmennasta gata bæjarins sem fékk viðurkenningu að
þessu sinni.