28. okt. 2013

Afhenti lykil að Bessastaðakirkju

Í haustferð þjónustumiðstöðvarinnar nú nýlega afhenti garðyrkjustjóri séra Hans Guðberg lykil að Bessastaðakirkju sem faðir hans smíðaði
  • Séð yfir Garðabæ

Þegar Þjónustumiðstöð Garðabæjar fór í árlega haustferð sína 17. október sl. var fyrsti áfangastaðurinn Bessastaðir, þar sem séra Hans Guðberg tók á móti hópnum. Við þetta tilefni afhenti Smári Guðmundsson garðyrkjustjóri séra Hans Guðberg lykil að kirkjunni frá föður sínum Guðmundi Þorkelssyni, járnsmíðameistara í plötu- og ketilsmíði.

Guðmundur hafði smíðað lykilinn sér til skemmtunar og ætlaði sér að gefa hann kirkjunni. Lásinn að kirkjunni og lyklarnir voru smíðaðir upphaflega í Vélsmiðjunni Héðni en lyklarnir hafa glatast með árunum. Séra Hans var því að vonum ánægður með að fá aukalykil. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvar voru jafnframt mjög ánægðir með heimsóknina á Bessastaði og þakka séra Hans og Júlíusi fyrir höfðinglegar móttökur.