20. jún. 2007

Góð þátttaka í vorferð FEG og FEBG

Vorferð FAG_sögualdarbærinn
  • Séð yfir Garðabæ


Vorferð FEG og FEBG var farin 12. júní sl. í blíðskaparveðri.
Góð þátttaka var í ferðinni og var farið á tveimur 40 manna rútum.

 

Að þessu sinni var ferðinni heitið austur í Rangárvallasýslu og fyrsta stoppið var í Árnesi þar sem ferðalangar gæddu sér á kaffi eða pylsum. Þaðan var keyrt inn Þjórsárdal sem skartaði sínu fegursta og var sögualdarbærinn skoðaður að utan. Því næst var Sultartangavirkjun skoðuð og þar var ferðalöngum boðið upp á kaffi, svala og kex. Ekið var að Rangárbotnum og upptök Rangár skoðuð. Því næst var Leirubakki heimsóttur og Heklusafnið skoðað. Þaðan lá leiðin í Oddakirkju þar sem kunnugir sögðu frá. Kvöldmatur var snæddur á Hótel Hvolsvelli og þaðan var svo haldið heim á leið. Heimferðin tók heldur lengri tíma en áætlað var, þar sem önnur rútan bilaði í Kömbunum.

 

Ferðalangar voru ánægðir með þessa rúmlega 12 tíma ferð sem skipulögð var af Sigurði Axelssyni og konu hans Hrafnhildi Kristinsdóttur. Þau hjón sáu einnig ferðalöngum fyrir skemmtilegum heilabrotum í formi kveðskapar og gátu.  Fleiri lögðu sitt af mörkum til að gera ferðina sem skemmtilegasta t.d. með gamanmáli, frásögnum, fjöldasöng o.fl.

 

Að sögn Huldu Ósk Gränz, sem hefur starfað sem forstöðumaður félagsstarfs eldri borgara síðan um miðjan febrúar, var þessi ferð einkar skemmtileg og hún hefur notið þess að starfa í vetur með þessum skemmtilega hópi bæjarbúa. Félagsstarfið er núna komið í sumarfrí fyrir utan Boccia-hóp og kvennaleikfimishóp sem eru að æfa fyrir landsmót í júlí. Undirbúningur fyrir félagsstarfið næsta vetur er þegar hafið og verður það auglýst síðar í sumar þegar nær dregur opnun Jónshúss í Sjálandi.  

 


Fyrir utan sögualdarbæinn í Þjórsárdal í blíðskaparveðri.

 


Sultartangavirkjun skoðuð.