19. jún. 2007

Gott ástand öryggismála hjá dagforeldrum í Garðabæ

Dagforeldrar ryggisttekt
  • Séð yfir Garðabæ


Nýleg úttekt sem gerð var á öryggismálum hjá dagforeldrum í Garðabæ sýnir að ástand öryggismála hjá þeim er almennt gott. Starfsmenn Forvarnahúss Sjóvá gerðu úttektina að beiðni bæjarráðs Garðabæjar.

Fyrsta sveitarfélagið til að veita aðstöðustyrk til dagforeldra

Bæjarráð samþykkti að láta taka öryggismálin út í kjölfar ákvörðunar sinnar um að veita starfandi dagforeldrum í bænum aðstöðustyrk sem m.a. er ætlaður til að bæta umhverfi og aðstöðu barnanna sem hjá þeim dvelja. Með þessum ákvörðunum bæjarráðs hefur Garðabær tekið forystu hvað varðar öryggismál hjá dagforeldrum en Garðabær er fyrsta sveitarfélag landsins sem greiðir dagforeldrum aðstöðustyrk.

Úttektin var framkvæmd 16. apríl sl. af Fjólu Guðjónsdóttur og Herdísi L. Storgaard starfsmönnum Sjóvá Forvarvarnahúss. Fyrir hönd Garðabæjar var viðstödd úttektina Hulda Ósk Gränz daggæslufulltrúi Garðabæjar.

Engar alvarlegar athugasemdir komu fram

Almenn niðurstaða skoðunar er að ástand öryggismála hjá dagforeldrum sé gott. Mikill metnaður er lagður í starfið og áhugi fyrir því að gera vel. Engar athugasemdir voru gerðar sem kröfðust tafarlausra útbóta, en fram komu nokkrar minniháttar ábendingar sem unnt er að bregðast við með einföldum hætti.

Í úttektinni voru meðal annars skoðuð eftirtalin atriði: Aðkoma foreldra og barna gangandi og akandi að daggæsluheimili, aðstaða á lóð, hvíldarsvæði barna (hvar þau sofa), vagnar, leiksvæði innanhúss og leikföng, eldhús/matsvæði, baðherbergi/ skiptiaðstaða, eldvarnir og þekking á notkun búnaðar, yfirferð á neyðaráætlun o.fl.

Gátlisti og viðbragðsáætlun útbúin í kjölfarið

Í kjölfar úttektarinnar verður unninn gátlisti fyrir heimili dagforeldra, slysaskráningarblað fyrir dagforeldra og gátlisti fyrir sjúkrakassa auk þess sem útbúin verður viðbragðsáætlun fyrir öll heimili dagforeldra í Garðabæ.

Vantar fleiri dagforeldra til starfa

Að sögn daggæslufulltrúa er ákaflega gott samstarf við dagforeldrana í bænum, enda leggja þeir mikinn metnað í að gera vel og er þessi öryggisúttekt enn ein viðurkenningin fyrir þeirra starf. Nú eru starfandi tíu dagforeldrar í bænum og er þörf á fleirum fyrir næsta vetur.

Mynd af þeim sem framkvæmdu úttektina, Huldu, Fjólu og Herdísi

Á myndinni eru frá vinstri: Hulda, Fjóla og Herdís