18. jún. 2007

Karl Ágúst Úlfsson er bæjarlistamaður Garðabæjar 2007

Karl Ágúst Úlfsson er bæjarlistamaður Garðabæjar 2007
  • Séð yfir Garðabæ

Karl Ágúst Úlfsson, leikstjóri, leikari og rithöfundur, er bæjarlistamaður Garðabæjar 2007. Gunnar Einarsson bæjarstjóri afhenti Karli Ágústi starfsstyrk listamanna árið 2007 við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

 

Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær afhent starfsstyrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem hlýtur starfsstyrkinn hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar. Bæjarstjórn Garðabæjar velur bæjarlistamann í samráði við menningar- og safnanefnd bæjarins.

 


Frá vinstri: Páll Hilmarsson forseti bæjarstjórnar, Karl Ágúst Úlfsson bæjarlistamaður Garðabæjar 2007, Jóna Sæmundsdóttir formaður menningar- og safnanefndar og Gunnar Einarsson bæjarstjóri. (Ljósmynd: Björn Pálsson)

  

Karl Ágúst Úlfsson útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1981 og lauk framhaldsnámi (MFA-gráðu) í leikritun, handritagerð og leikstjórn við Ohio University árið 1994. Eftir útskrift úr Leiklistarskóla Íslands lék hann fjölda hlutverka hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleikhúsinu og Alþýðuleikhúsinu, en sló eftirminnilega í gegn í hlutverki Danna í kvikmyndunum Nýju lífi, Dalalífi og Löggulífi, sem allar teljast til vinsælustu verka íslenskrar kvikmyndasögu.

 

Á síðari árum hefur hann einkum starfað sem höfundur, leikstjóri og þýðandi í leikhúsi og við sjónvarp. Meðal leikverka Karls Ágústs sem hafa verið sýnd á sviði hér á landi eru ,,Í hvítu myrkri", söngleikirnir ,,Fagra veröld" og ,,Ó þessi þjóð",  og vinnustaðaleikritið Stóllinn hans afa.Auk þess hefur hann þýtt yfir þrjátíu leikverk fyrir útvarp og leiksvið. Nýjasta verk Karls er ný leikgerð á sögunni um Gosa, sem mun sjást á fjölum Borgarleikhússins næsta haust.

 

Í dag þekkja landsmenn hann einna helst sem aðalhöfund, leikstjóra og leikara í Spaugstofunni. Karl stofnaði Spaugstofuna 1985 ásamt fjórum félögum sínum. Árið 1989 hóf göngu sína þáttaröðin ’89 á Stöðinni, vikulegir skopþættir um atburði líðandi stundar í umsjá Spaugstofunnar. Þættirnir náðu strax gífurlegum vinsældum, sem hafa haldist allt fram á þennan dag.

 

Karl hefur einnig lagt nokkra stund á kennslu, bæði í leikritun og skapandi skrifum. Auk þess hefur hann flutt fjölda fyrirlestra um húmor, hlátur og gildi þess að brosa í lífinu. Einnig hefur hann verið virkur í félagsstörfum og starfað í stjórn Félags íslenskra leikara og Félags leikskálda og handritahöfunda, undanfarin 6 ár hefur hann átt sæti í stjórn Rithöfundasambands Íslands.

 

Karl Ágúst hefur einnig samið námsefni fyrir unglinga í samvinnu við konu sína Ásdísi Olsen og þau hlutu nýverið Íslensku menntaverðlaunin fyrir námsefni sem stuðlað hefur að nýjungum í skólastarfi.