21. maí 2007

Fagur söngur í Garðabæ

Fagur söngur í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ


Um 650 börn og ungmenni frá öllum Norðurlöndunum tóku þátt í norrænu barnakóramóti dagana 16-20. maí í Garðabæ. Mótið var skipulagt af Tónmenntakennarafélagi Íslands og framkvæmdastjóri mótsins var Hildur Jóhannesdóttir tónmenntakennari í Hofsstaðaskóla. Mótið er haldið reglulega og Norðurlöndin skiptast á að halda mótið og að þessu sinni var Garðabær gestgjafi mótsins.

Kórarnir sem tóku þátt lífguðu upp á bæjarbraginn og aðaltónleikar mótsins fóru fram í íþróttahúsinu Mýrinni sunnudaginn 20. maí sl. þar sem allir kórarnir sungu saman. Hátíðarverk mótsins Slæðingur eftir Hildigunni Rúnarsdóttur tónskáld við texta Hannesar Hafstein var flutt við undirleik Sinfóníhljómsveitar áhugamanna og Blásarakvintetts Garðabæjar undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar á lokatónleikunum í Mýrinni.


Myndir frá lokaæfingu allra kóranna í íþróttahúsinu Mýrinni.

Á hátíðartónleikunum var einnig flutt íslensk og norræn kórtónlist sem kórarnir hafa verið að undirbúa til samsöngs hver í sínu heimalandi. Stjórnendur stórkórsins voru þau Þórunn Björnsdóttir, tónmenntarkennari og kórstjóri úr Kópavogi, Hilmar Örn Agnarsson, tónmenntarkennari, kórstjóri og organisti í Skálholti og Bernharður Wilkinson hljómsveitarstjóri.

Hátíðartónleikarnir heppnuðust einkar vel og voru vel sóttir.