Styrkir afhentir úr afrekssjóði
Fjórir íþróttamenn fengu afhenta styrki úr afrekssjóði sl. miðvikudag en þeir eru veittir íþróttamönnum sem sýna afburða árangur í íþróttagrein sinni. Bæjarstjórn veitti Stjörnunni einnig 5 milljónir króna í styrk vegna glæsilegs árangurs meistaraflokka félagsins í vetur. Styrkirnir voru veittir við hátíðlega athöfn á Garðaholti.
Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs afhenti Páli Grétarssyni, framkvæmdastjóra Stjörnunnar 5 milljóna króna styrk til félagsins. Tilefnið er afar glæsilegur árangur á leiktíðinni sem er að ljúka; karlalið handknattleiksdeildar varð bikarmeistari, kvennalið deildarinnar varð Íslands og deildarmeistari, karlaliðið í blaki varð deildar-, bikar- og Íslandsmeistari og karlaliðið í körfuknattleik komst upp í úrvalsdeildina og mun spila við öll bestu lið landssins næsta vetur.
Styrkir úr afrekssjóði
Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs afhenti styrki úr afrekssjóði. Þau sem fengu styrki voru:
Eygló Myrra Óskarsdóttir kylfingur
Þó svo að Eygló sé ung að árum hefur hún náð geysilega langt í íþrótt sinni. Eygló varð á síðasta ári Íslandsmeistari í höggleik stúlkna og stigameistari GSÍ í sama flokki. Hún varð klúbbmeistari kvenna í GKG og varð Faldomeistari stúlkna 18 ára og yngri. Hún stefnir langt í íþrótt sinni og er öðrum á sínum aldri sérlega góð fyrirmynd.
Eygló fékk kr. 150.000 úr afrekssjóði
Ottó Sigurðsson kylfingur
Ottó ákvað síðastliðið haust að feta veg atvinnumennskunnar í golfi. Ottó hefur æft mjög vel á þessu ári og stefnir á fjölmörg mót hér heima og erlends á þessu ári. Ottó spilar fyrir GKG.
Ottó fékk kr. 150.000 úr afrekssjóði
Linda Björk Lárusdóttir frjálsíþróttakona
Linda bætti sig í öllum greinum á síðasta ára og var valin í A-landslið Íslands í 4 x 100 m hlaupi. Hún varð Íslandsmeistari í 60 m og 100 m grindahlaupi á síðasta ári og byrjar árið vel því hún varð á þessu ári Íslandsmeistari í 60 m hlaupi, 60 m grindarhlaupi og 200 m hlaupi í flokki 19-22 ára innanhús. Hún stefnir á enn frekari árangur á þessu ári.
Linda fékk kr. 200.000 úr afrekssjóði
Ragnheiður Ragnarsdóttir sundkona
Ragnheiður varð íþróttamaður Garðabæjar á síðasta ári. Hún var í 26. sæti á alþjóðlega stigalistanum í 50 m skriðsundi í 25 m laug í lok síðasta árs og setur sér það markmið að komast á topp 10 á þessu ári. Ragnheiður hefur verið okkar helsta sundkona á mótum erlendis og mun á þessu ári keppa í fjölmörgum keppnum m.a. keppti hún í nýloknu HM í Ástralíu ásamt fleiri keppnum og æfingaferðum á þessu ári og því næsta.
Ragnheiður fékk kr. 250.000 úr afrekssjóði auk þess fékk hún 100.000 krónur fyrir að vera valin íþróttamaður Garðabæjar 2006.
Frá vinstri: Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir, Ottó Sigurðsson,
Linda Björk Lárusdóttir, Eygló Mirra Óskarsdóttir,
Gunnar Einarsson og Ragnar Marteinsson sem tók við
styrknum fyrir hönd Ragnheiðar Ragnarsdóttur.
Páll Grétarsson (t.v.) tekur við 5 milljóna króna styrk t.h.
Stjörnunnar úr hendi Erlings Ásgeirssonar.