11. maí 2007

Rammaskipulag Urriðaholts fær verðlaun bandarískra arkitekta

Rammaskipulag Urriðaholts fær verðlaun bandarískra arkitekta
  • Séð yfir Garðabæ


Rammaskipulag fyrir Urriðaholt í Garðabæ, fékk nýlega verðlaun frá Boston Society of Architects (BSA). Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Nýr tónn í skipulagi byggðar á Íslandi

Byggðin er lágreist og nokkuð þétt, með áherslu á að skapa þau gæði sem við fólk skynjar í rótgróinni byggð. Verðlaunin tengjast einnig góðu gönguumhverfi, meðferð ofanvatns til að vernda Urriðavatn, tengingum við útivist og síðast en ekki síst því hvernig leitast er við að mynda skjól og fanga sólarljós. Með þessu rammaskipulagi hefur verið sleginn nýr tónn í skipulagi byggðar á Íslandi.

BSA er stærsta fagfélagið innan amerísku arkitektasamtakanna, með yfir 4.000 félaga. Auk arkitekta eru í félaginu skipulagsfræðingar, verkfræðingar, þróunaraðilar, verktakar, starfsfólk sveitarfélaga ofl.

Framúrskarandi hönnun og skipulagsáætlanir

Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á framúrskarandi hönnun og skipulagsáætlunum. Dómnefnd tekur mið af fjölmörgum þáttum sem varða t.d. hagræna og samfélagslega þætti, auk hönnunar, sem beint og óbeint hafa áhrif á gæði byggðarinnar. Það er arkitektastofan Arrowsteet sem hannaði viðskiptastrætið í rammaskipulaginu, sem er félagi í BSA og tilnefndi rammaskipulagið í Urriðaholti til þessara verðlauna.

Auk sjálfra verðlaunanna verður Urriðaholti ehf boðið að taka þátt í sýningu á verðlaunaverkefnum, sem haldin er í tengslum við árlega ráðstefnu, BSA/Build Boston Design Celebration. Ráðstefnan verður haldin í Boston í nóvember. ´

Framlag Íslands í norrænt verkefni

Rétt er einnig að minna á að rammaskipulag Urriðaholts var valið sem íslenskt framlag í norrænt rannsóknarverkefni, norrænna skipulagsyfirvalda og Nordregio, norrænu rannsóknarstofnunarinnar í skipulags- og byggðamálum sem stofnuð var af Norrænu ráðherranefndinni.

Markmið verkefnisins var að leita góðra fordæma og skilgreina þær aðstæður sem geta haft ráðandi áhrif á samkeppnishæfni og sjálfbærni borgarsvæða á Norðurlöndum. Í verkefninu voru skoðuð dæmi um árangursrík skipulagsverkefni á Norðurlöndum m.t.t. landnotkunar, samgangna, byggðamynsturs, staðaranda, menningarmála, umhverfismála ofl. í því skyni að byggja upp samkeppnishæf og sjálfbær samfélög.

Skýrsluna er að finna á

http://www.nordregio.se/Files/wp0701.pdf .

www.urridaholt.is