8. maí 2007

Jazzbræðingur á vortónleikum Kvennakórs Garðabæjar

Jazzbræðingur á vortónleikum Kvennakórs Garðabæjar
  • Séð yfir Garðabæ


Vortónleikar Kvennakórs Garðabæjar, sem haldnir voru í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli 6. og 7. maí sl., voru svo sannarlega með óhefðbundnu sniði. Efnisskrá tónleikanna var að þessu sinni í léttari kantinum en fyrir hlé söng kórinn erlend lög frá hinum ýmsu heimshornum auk kórlaga úr óperum og óperettum. Píanóleikari kvennakórsins, Kristinn Örn Kristinsson, studdi kórinn með sinni alkunnu snilld. 

Eftir hlé bættust landsþekktir jazzleikarar í hópinn en það voru bræður Ingibjargar Guðjónsdóttur kórstjóra, þeir Ómar gítarleikari og Óskar saxófónleikari auk Tómasar R. Einarssonar kontrabassaleikara og Matthíasar M.D. Hemstock slagverksleikara. Úr þessu varð hinn magnaðasti bræðingur þar sem íslensk sönglög voru sett í nýjan og skemmtilegan búning við mikinn fögnuð áheyrenda.  Salurinn var þéttsetinn á báðum tónleikunum.

 

Kvennakór Garðabæjar er nú á leið í upptökur fyrir væntanlegan geisladisk. Á glæsilegri heimasíðu kórsins, www.kvennakor.is má fræðast meira um þennan kraftmikla kór sem svo sannarlega hefur sett sinn svip á menningarlífið í Garðabæ undanfarin ár.


 

Myndir frá tónleikunum 6. og 7. maí sl.