30. apr. 2007

Hreinsunarátakið hafið!

Hreinsunarátakið hafið!
  • Séð yfir Garðabæ


Bæjarfulltrúar og bæjarstjóri hófu hreinsunarátak 2007 með því að hreinsa hluta Arnarneslækjar laugardaginn 28. apríl. Bæjarfulltrúarnir hittust við Hofsstaðaskóla kl. 10.30 og hófust handa með hrífur, poka og einnota hanska að vopni. Verkið reyndist nokkuð drjúgt og var greinilega þörf á því að taka til hendinni í og við lækinn.

Bæjarbúar eru allir hvattir til að hreinsa lóðir sínar og nærumhverfi þessa dagana. Garðúrgang má setja í pokum út fyrir lóðamörk en starfsmenn bæjarins fara um bæinn í vikunni og hirða pokana.

Félög og aðrir hópar sem taka sig saman um að hreinsa tiltekin svæði geta sótt um hvatningarstyrk til bæjarins með því að senda tölvupóst á netfangið erlabil@gardabaer.is.

Lokahátíð átaksins verður á Garðatorgi föstudaginn 4. maí en þá verður snyrtilegri bæ fagnað. Allir Garðbæingar eru velkomnir. Boðið verður upp á vöfflur og kakó og garðyrkjudeild bæjarins gefur bæjarbúum birkiplöntur sem þakklæti fyrir þátttökuna.

Mættir til starfa. Frá vinstri: Bæjarfulltrúarnir Steinþór
Einarsson og Erling Ásgeirsson, Gunnar Einarsson bæjarstjóri,
Júlía Ingvarsdóttir, formaður umhverfisnefndar, Páll Hilmarsson
og Stefán Snær Konráðsson bæjarfulltrúar, Sturla Þorsteinsson
varabæjarfulltrúi og Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur.

Vinnan hafin.