27. apr. 2007

Ný viðbygging rís við FG

Ný viðbygging rís við FG
  • Séð yfir Garðabæ


Með nýrri viðbyggingu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ getur skólinn tekið við allt að 200 fleiri nemendum en unnt er í dag. Menntamálaráðherra og bæjarstjórar Garðabæjar og sveitarfélagsins Álftaness skrifuðu undir samning um gerð viðbyggingarinnar í gær að viðstöddum nemendum og starfsfólki skólans.

Um 1000 fm viðbygging

Þorsteinn Þorsteinsson skólameistari segir að skólinn sé eftirsóttur af nemendum alls staðar af á höfuðborgarsvæðinu og undanfarin ár hafi ekki verið unnt að veita öllum skólavist sem þess óska. Nýja viðbyggingin verði um 1000 fm og geti rúmað a.m.k. 10 kennslustofur sem geri skólanum kleift að taka við allt að 200 fleiri nemendum í dagskóla.

Bætir aðstöðu verk- og listgreina

Nýja viðbyggingin gefur skólanum einnig færi á að bæta verulega aðstöðu verk- og listgreina og starfsbrautar skólans, að sögn Þorsteins en listnámsbraut FG hefur notið mikilla vinsælda.

Garðabær greiðir 36% stofnkostnaðar

Stofnkostnaður skólans skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60%, en Sveitarfélagið Álftanes 4% og Garðabær 36%.  Gert er ráð fyrir að heildarstofnkostnaður við viðbygginguna verði 205 milljónir króna.

Skrifað undir samninginn

Skrifað undir samninginn. Frá vinstri: Sigurður Magnússon,
bæjarstjóri Álftaness, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
menntamálaráðherra og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri
Garðabæjar

Núverandi forseti NFFG, Ásta María Harðardóttir og
verðandi forseti NFFG, Stefán Rafn Sigurbjörnsson stjórnuðu
athöfninni.