24. apr. 2007

Viljayfirlýsing um útilífsmiðstöð undirrituð á 40 ára afmæli Vífils

Viljayfirlýsing um útilífsmiðstöð undirrituð á 40 ára afmæli Vífils
  • Séð yfir Garðabæ


Í tilefni af 40 ára afmæli Skátafélagsins Vífils undirrituðu Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Helgi Grímsson, félagsforingi Vífils viljayfirlýsingu um samstarf við uppbyggingu á útilífsmiðstöð Garðabæjar í Heiðmörk laugardaginn 21. apríl sl.

Aðstaða til útilífs og náttúruskoðunar

Skátafélagið Vífill hélt þá formlega upp á 40 ára afmæli sitt með fjölmennu kaffiboði sem haldið var í veislusal Vífils í Jötunheimum. Hápunktur fagnaðarins var án efa undirritun viljayfirlýsingarinnar sem felur í sér vilja beggja aðila til að vinna að uppbyggingu 160 fm útilífsmiðstöðvar í Heiðmörk ásamt aðstöðu til náttúruskoðunar, útikennslu, útieldunar, útileika og útivistar.  

Nýtist bæjarfélaginu við ýmsa starfsemi

Skátafélagið mun á næstunni vinna nánar að hugmyndum um skipulag svæðisins. Aðstaðan verður hönnuð með það í huga að hún nýtist ekki aðeins skátunum heldur einnig fyrir starfsemi leikskóla og grunnskóla bæjarins og aðra starfsemi og uppákomur á vegum bæjarfélagsins.

Garðabær mun koma að fjármögnun útilífsmiðstöðvarinnar en Skátafélagið tekur að sér uppbyggingu og rekstur mannvirkjanna.

Nýr heiðursfélagi Vífils

Í afmælisfagnaðinum fór Ágúst Þorsteinsson fyrrverandi félgasforingi og fyrrverandi skátahöfðingi yfir sögu félagsins og sýndar voru myndir frá fyrri árum.

Sigurgeir Óskarsson, fyrrverandi félagsforingja Vífils, var gerður að heiðursfélaga Vífils og sérstaklega þökkuð fyrri störf í þágu félagsins.

Margir tóku til máls og færðu félaginu góðar gjafir, en hæst ber undirritun viljayfirlýsingar milli Vífils og Garðabæjar um uppbyggingu Útilífs- og náttúrumiðstöðvar Garðabæjar í Heiðmörkinni, að sögn Helga Grímssonar félagsforingja.

 

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar

Á meðfylgjandi mynd sjást Páll Hilmarsson forseti bæjarstjórnar, Hrafnhildur Sigurðardóttir aðstoðarfélagsforingi Vífils, Helgi Grímsson. félagsforingi Vífils og Gunnar Einarsson bæjarstjóri eftir undirritun.