20. apr. 2007

Stórsveitin lék fyrir fullu húsi á jazzhátíð Garðabæjar

Stórsveitin lék fyrir fullu húsi á jazzhátíð Garðabæjar
  • Séð yfir Garðabæ


Stórsveit Reykjavíkur hélt tónleika um kvöldið á Sumardaginn fyrsta í glæsilegum sal Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Tónleikarnir voru þeir fyrstu á Jazzhátíð Garðabæjar sem nú er haldin í annað sinn. Sérstakir gestir hljómsveitarinnar voru Borgardætur, þær Andrea Gylfadóttir, Berglind Björk Jónasdóttir og Ellen Kristjánsdóttir.  Stjórnandi hljómsveitarinnar var Össur Geirsson.

Næstu tónleikar hátíðarinnar fara fram föstudagskvöldið 20. apríl kl. 20 í sal Tónlistarskóla Garðabæjar (að Kirkjulundi). Þá koma fram ungir og efnilegir jazztónlistarmenn þau María Magnúsdóttir söngkona og Jóhannes Þorleiksson trompetleikari ásamt hljómsveit.  Það er ókeypis aðgangur að hátíðinni en til að tryggja sér sæti er hægt að nálgast miða fyrirfram í útibúi Glitnis við Garðatorg í Garðabæ.

Laugardaginn 21. apríl verða tvennir tónleikar í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Kl. 14:00 mætir Jóel Pálsson saxófónleikari til leiks ásamt kvintett og kl. 15:30 hefjast tónleikar með Agnari Má Magnússyni píanóleikara til heiðurs þeim Árna Elfari og Ólafi Stephensen.  Sjá nánari dagskrá hér.

 


Um 450 manns mættu á tónleika Stórsveitar Reykjavíkur og Borgardætra.


Borgardætur voru sérstakir gestir Stórsveitarinnar og tóku nokkur lög saman og í sitt hvoru lagi með sveitinni.


Áhorfendur voru í miklu sumarskapi á Sumardaginn fyrsta.


Ellen Kristjánsdóttir tekur hér lag með Stórsveitinni.