13. apr. 2007

Menningar- og safnanefnd Garðabæjar og Glitnir bjóða upp á jazzveislu

Menningar- og safnanefnd Garðabæjar og Glitnir bjóða upp á jazzveislu
  • Séð yfir Garðabæ

 

Jazzhátið Garðabæjar verður haldin í annað sinn dagana 19.-21. apríl. Hátíðin í fyrra heppnaðist frábærlega vel, en þá var dagskráin alfarið byggð í kringum innfædda, aðflutta og brottflutta Garðbæinga.  Í ár verða listamenn úr Garðabæ áfram áberandi, en hátíðin er ekki einskorðuð við þá enda er framtíðarstefna hátíðarinnar að vera opin fyrir öllu.

 

Á hátíðinni í ár verður kastljósinu m.a. beint að yngstu og elstu jazztónlistarmönnunum sem tengjast bænum, auk þess sem sterkir listamenn alls ótengdir bænum koma fram.  Dagskráin í ár er metnaðarfull og sérstaklega fjölbreytt. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Sigurður Flosason tónlistarmaður og fyrrum bæjarlistamaður Garðabæjar.

Það er menningar- og safnanefnd Garðabæjar sem stendur að hátíðinni og aðalstyrktaraðili hátíðarinnar í ár er Menningarsjóður Glitnis.  Ókeypis verður inn á alla tónleika á hátíðinni í boði Menningarsjóðs Glitnis og menningar- og safnanefndar Garðabæjar.  Til að tryggja sér sæti er tónlistarunnendum bent á að sækja sér miða fyrirfram í útibúi Glitnis að Garðatorgi 7 frá og með mánudeginum 16. apríl nk. en einnig verður hægt að fá miða á tónleikastað. 

 

Opnunartónleikar hátíðarinnar á Sumardaginn fyrsta verða stórir í sniðum.  Sjálf Stórsveit Reykjavíkur sveiflar sér í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ, og gestir hljómsveitarinnar eru ekki af verri endanum.  Borgardætur; Andrea Gylfadóttir, Ellen Kristjánsdóttir og Berglind Björk Jónasdóttir koma fram með Stórsveitinni og syngja bæði sem einsöngvarar og tríó.  Stjórnandi er Össur Geirsson.

 

Á föstudagskvöldinu 20. apríl kynnum við yngstu jazzlistamenn bæjarins.  María Magnúsdóttir og Jóhannes Þorleiksson eru Garðbæingar og langt komnir afburðanemendur við Tónlistarskóla FÍH.  Þau leiða ferska og skemmtilega dagskrá í skemmtilegum sal Tónlistarskólans í Garðabæ.

 

Laugardaginn 21. apríl mætir einn af fremstu jazzmönnum þjóðarinnar til leiks. Jóel Pálsson leikur með kvintett sínum tónlist af diski sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin nú nýverið. Hér leynast líka Garðbæingarnir Hilmar Jensson og Matthías Hemstock innanborðs.

 

Á lokatónleikum hátíðarinnar, laugardaginn 21. apríl, leiðir einn af bestu jazzpíanóleikurum þjóðarinnar og nýbakaður Garðbæingur; Agnar Már Magnússon tríó sitt með þeim Þorgrími Jónssyni á kontrabassa og Erik Qvick á trommur. Dagskráin er tileinkuð kollegum Agnars og merkisberum jazzins í Garðabæ, píanóleikurunum Árna Elfari og  Ólafi Stephensen. Á dagskrá verða lög sem tengjast Ólafi og Árna, en vonir standa til að þeir verði viðstaddir tónleikana.

 

Sjá nánari dagskrá og tímasetningar með því að smella hér.

 

 

 

Smellið á myndina til að sjá auglýsinguna (pdf-skjal)