7. okt. 2016

Taka þátt í hönnun leikskólalóðar Urriðaholtsskóla

Tveir rýnihópar leikskólabarna í Garðabæ voru myndaðir til að koma með hugmyndir að útfærslu á leikskólalóð Urriðaholtsskóla
  • Séð yfir Garðabæ

Tveir rýnihópar leikskólabarna í Garðabæ voru myndaðir til að koma með hugmyndir að útfærslu á leikskólalóð Urriðaholtsskóla, sem nú er í byggingu. Hóparnir voru á leikskólunum Ökrum í Akrahverfi og á Krakkakoti á Álftanesi.

Áhugavert var að sjá hve mikill samhljómur var í svörum barnanna frá leikskólunum. Öll voru þau sammála um að skemmtilegast væri að hjóla og róla, að geta leikið með dót úti í kofa og verið í fótbolta. Börnin telja nauðsynlegt að hafa aparólur, kaðal til að klifra í, trampólín, rennibraut, hoppkastala, vegasalt og gormadýr á lóðinni. Einnig nefndu þau að gott væri að hafa útisalerni og skúr fyrir dótið. Af öðrum hugmyndum sem komu fram má nefna perutré, litla sundlaug með rennibraut og kanínur.

Það sem börnin telja erfiðast að hafa á leikskólalóðum eru langar brattar brekkur þar sem þær geti verið hættulegar ef einhver gleymir sér og hjólar niður. Þau bentu líka á að sandkassar megi ekki vera of litlir því þar vildu margir leika sér.

Hugmyndir barnanna verða nýttar inn í hugmyndavinnuna við hönnun leikskólalóðarinnar í Urriðaholtsskóla.