16. mar. 2007

Líflegar umræður á fundi um nýjan miðbæ

Líflegar umræður á fundi um nýjan miðbæ
  • Séð yfir Garðabæ


Um 140 manns sóttu fund um nýjan miðbæ Garðabæjar sem haldinn var í Flataskóla laugardaginn 10. mars sl.  Á fundinum var kynnt deiliskipulagstillaga að verslunarlóðum á svokölluðum Sveinatungureit. Sú tilllaga er nú í formlegri kynningu. Frestur til að skila athugasemdum við hana er til 4. apríl nk. 

Áform um uppbyggingu á Garðatorgi

Einnig voru kynnt áform Garðabæjar og eignarhaldsfélagsins Klasa hf um uppbyggingu Miðbæjar Garðabæjar á Garðatorgi (efra svæði) og á Sveinatungureit. Nú er unnið að deiliskipulagi efra svæðisins og er stefnt að því að það fari í formlega kynningu eftir 2 til 3 mánuði.

Stefán Snær Konráðsson, formaður skipulagsnefndar stýrði fundinum en Þorgils Óttar Mathiesen, framkvæmdastjóri Klasa hf og Freyr Frostason, arkitekt hjá THG kynntu tillögurnar. Fulltrúar Klasta, THG arkitekta og VST sátu fyrir svörum ásamt Gunnari Einarssyni bæjarstjóra.

Líflegar umræður spunnust um tillögurnar og fundargestir komu með margar athugasemdir og ábendingar sem unnið verður úr. 

Verslunarhús 2 m hærra en hús Hjólbarðaverkstæðis

Deiliskipulagstillaga Sveinatungureits gerir ráð fyrir 14.450 m²  lóð verslunarmiðstöðar og 2.250 m²  lóð bensínstöðvar. Á lóð verslunarmiðstöðvarinnar verði leyfilegt að byggja allt að 5000 m²  verslunarhús og mesta leyfilega hæð húss verði 6,5 m yfir gólfkóta sem er 27 m.y.s. Þak húss er þannig rúmum 2 metrum hærri en þak núverandi húss Hjólbarðaverkstæðis við Goðatún 4-6.

Bílastæði verði 195 ásamt bílageymslu sem taki 71 stæði. Á lóð bensínstöðvar verði gert ráð fyrir 500 m²  þjónustuhúsi. Hámarkshæð bensínstöðvarhúss verði 4 m en þar er gólfkóti 30 m.y.s.

Íbúðir og verslanir á Garðatorgi

Frumtillögur að deiliskipulagi við Garðatorg gerir ráð fyrir um 140 íbúðareiningum í 4-5 hæða byggingum, rumlega rúmlega 5.000 m² verslunarhúsnæði auk hönnunarsafns og 300 bílastæðum á torginu og í bifreiðargeymslum undir því. Í norðurhorni efra svæðis við Bæjarbraut gerir tillagan ráð fyrir 9 hæða íbúðarturni. Samtals mun stærð ibúðarhúsnæðis verða um 20.000 m².

Glærur frá fundinum.

Mynd frá fundinum. Stefán Snær Konráðsson í pontu.

Stefán Snær Konráðsson stýrði fundinum.