16. mar. 2007

Rætt um fjölskyldulíf á málþingi um yngstu börnin í Garðabæ

Rætt um fjölskyldulíf á málþingi um yngstu börnin í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ


Málþing um yngstu börnin í Garðabæ

Fjölmenni var á málþingi um yngstu börnin í Garðabæ sem haldið var í Flataskóla 14. mars sl. Umræðuefni málþingsins var hvernig við getum sem best búið að börnum í Garðabæ svo að þau fá notið samvistar við fjölskyldu sína svo og jafnaldra.

Á málþinginu fjallaði Lúðvík Örn Steinarsson, formaður leikskólanefndar um þá þjónustu sem í boði er fyrir ung börn í Garðabæ og þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á síðastliðnum árum.

Stuðningur við dagforeldra stórefldur

Í Garðabæ hefur stuðningur við dagforeldra verið stórefldur. Annars vegar með stofngreiðslum sem eru til þess að bæta aðstöðu hjá dagforeldrum og hins vegar með þjónustusamningi þar sem framlag Garðabæjar er tryggt og gjald foreldra miðað við þau gjöld sem greidd eru fyrir leikskólavist.

Fjölbreytni í leikskólanámi

Fjölbreytni í leikskólanámi með leikskólum sem hafa ólíkar stefnur og starfsaðferðir er eitt af markmiðum Garðabæjar. Á öllum leikskólunum fer fram metnaðarfullt og gott starf þar sem áhersla er lögð á að börnunum líði vel og þau takist á við þroskandi og hvetjandi verkefni í gegnum leik. Í leikskóla er gaman, en ekki má gleyma því að samvera við fjölskylduna verður seint fullmetin og fyrstu ár barnanna eru fljót að líða.

Hagsmunir barna í fyrirrúmi

Í máli Ingibjargar Rafnar, umboðsmanns barna kom fram hvernig viðhorf til barna birtist í Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og í íslenskum lögum og það sjónarmið að ávallt skuli taka ákvarðanir með hagsmuni barna í fyrirrúmi. Hún ræddi einnig vinnudag barna sem oft er lengri en vinnutími foreldra þeirra.

Gyða Margrét Pétursdóttir, félagsfræðingur gerði grein fyrir rannsókn sinni á samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu og hversu duglegar íslenskar konur eru að vinna langan vinnudag ásamt því að eiga mörg börn. Vinnutími feðra er einnig með þeim lengsta meðal Evrópuþjóða.

Fjölskyldur með fjölskyldustefnu

Eftir kaffihlé ræddi Halla Tómasdóttir, framkvæmdarstjóri Viðskiptaráðs um sjónarmið atvinnulífsins varðandi fjölskyldulífið og áherslu þess á sveigjanlegan vinnutíma og fjölskylduvæna vinnustaði. Að lokum fjallaði Eva María Jónsdóttir dagskrágerðarmaður um hvernig foreldrar barna leitast við að samræma fjölskyldulíf og atvinnu og varpaði fram þeirri spurningu hvort að fjölskyldum skorti fjölskyldustefnu og mikilvægi þess að forgangsraða í lífi sínu á meðan að börnin eru ung.

Möguleiki gafst á fyrirspurnum og umræðum í lok kvöldsins. Fundarstjóri var Gunnar Einarsson, bæjarstjóri.

Gunnar Einarsson ásamt fyrirlesurum kvöldsins sem sitja fyrir svörum

Fyrirlesarar kvöldsins sitja fyrir svörum

Ráðstefnugestir voru um 100