Náttúrufar Skerjafjarðar og nágrennis verði verndað
Borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa ákveðið að skoða á vettvangi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) kosti þess að vernda náttúrufar Skerjafjarðar og nágrennis. Í vinnu sveitarfélaganna verður tekið mið af sérstöðu svæðisins með tilliti til lífríkis, jarðmyndana, útivistar og menningarminja.
Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu bæjarstjóranna og borgarstjóra sem birt var á ráðstefnu um verndun náttúrufars Skerjafjarðar og nágrennis sem haldin var í Íþróttamiðstöð Álftaness föstudaginn 2. mars sl.
Fjölmargir sveitarstjórnarmenn af höfuðborgarsvæðinu, þingmenn og sérfræðingar á sviði náttúru- og unhverfisverndar tóku þátt í ráðstefnunni.
Fundarstjóri var Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Yfirlýsingin og erindi frá ráðstefnunni eru aðgengileg á vefnum undir umhverfismál.