8. mar. 2007

Nýr samsstarfssamningur við Kvennakór Garðabæjar

Nýr samsstarfssamningur við Kvennakór Garðabæjar
  • Séð yfir Garðabæ


Mánudagskvöldið 5. mars sl. bauð Kvennakór Garðabæjar bæjarbúum á opna æfingu í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Salurinn var skreyttur í vorlitum og þó nokkur fjöldi mætti til að hlusta á fagran söng kórkvenna.  Tilefnið var undirritun nýs samstarfssamnings við Garðabæ.  Samningurinn er til þriggja ára og framlag bæjarins er 1.000.000 kr. á ári.

Kvennakór Garðabæjar hefur þegar fest sig í sessi í bænum og hefur nú verið starfræktur í 6 ár. Stofnandi og stjórnandi frá upphafi er Ingibjörg Guðjónsdóttir sópransöngkona. Kórinn hefur staðið fyrir margvíslegum menningaruppákomum bæði innanbæjar sem utan og fastir liðir hjá kórnum eru vor- og aðventutónleikar ásamt veglegri menningarvöku á haustin. Einnig hefur kórinn haft umsjón með kórdegi allra kóra í bænum sem nú er haldinn á tveggja ára fresti.

Haustið 2006 hafði kórinn frumkvæði að því að stofna Stúlknakór Garðabæjar fyrir stúlkur á aldrinum 12-16 ára og stefnir að enn frekari eflingu stúlknakórsins.
Markmið samningsins er að Kvennakór Garðabæjar efli enn frekar menningarlíf í Garðabæ og vinni að uppbyggingu og áframhaldandi starfi Stúlknakórs Garðabæjar.

Framundan eru vortónleikar hjá kórnum 6. og 7. maí sem að þessu sinni verða haldnir í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli.  Kórinn stefnir einnig að því að halda sérstakan kórskóla á næstunni fyrir konur sem hafa áhuga á kórstarfi og vilja taka þátt í starfi með kórnum.
Á heimasíðu Kvennakórs Garðabæjar, www.kvennakor.is, er hægt að skoða margvíslegan fróðleik um kórinn og dagskrána á næstunni hjá þeim. 


Samningurinn undirritaður. 
Frá vinstri við borðið: Jóna Sæmundsdóttir formaður menningar- og safnanefndar,
Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Ingibjörg Guðjónsdóttir kórstjóri og
Halldóra Viðarsdóttir formaður.


Kórinn flutti að sjálfsögðu nokkur lög fyrir gesti kvöldsins sem mættu til að fagna þessum tímamótum í sögu kórsins.