Franskt menningarvor í Garðabæ
Franskt menningarvor á Íslandi er viðamikil frönsk menningarveisla sem stendur yfir á Íslandi vorið 2007. Dagskráin var formlega sett við upphaf Vetrarhátíðar í Reykjavík núna í febrúar og stendur fram í maí. Frönsku listamennirnir M/M sem er samstarfsverkefni Mathias Augustyniak og Michael Amzalag taka þátt í frönsku menningarvori og á næstu dögum verða þeir við vinnu í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Í samstarfi við listakonuna Gabríelu Friðriksdóttur munu þeir vinna skissur og teikningar í sýningarsal safnsins að Garðatorgi. Teikningarnar tengjast vinnu við útilistaverk sem verður sett upp á Urriðaholti með vorinu í samstarfi við landeigendur. Skissurnar og teikningarnar verða til sýnis á Hönnunarsafninu á næstu vikum, nánar verður auglýst síðar um hvenær hægt verður að skoða hugmyndavinnuna sem birtist í teikningunum. M/M hafa með fjölbreyttu starfi sínu á sviði hönnunar, tónlistar og tísku endurheimt og endurskilgreint samskiptamáta og mótun sjálfsmynda. M/M hafa í mörg ár unnið náið með listamönnum s.s. Phillipe Parreno, Pierre Huyghe, Inez van Lamsweerde, Vinoodh Matadin, og Gabríelu Friðriksdóttur og hafa þeir sýnt afurðir slíks samstarfs á Feneyja-tvíæringnum undanfarin fjögur ár. Að auki sýndu þeir í London’s Institute of Contemporary Arts árið 2001 og í Palais de Tokyo í París, árið 2005. M/M hafa einnig unnið fyrir Björk. Verk M/M deila mörgum formlegum eiginleikum og hugtakahluttekningu með stefnu „Design Art“ hreyfingarinnar sem undanfarin 15 ár hefur orðið æ mikilvægari innan listaheimsins. Sjá einnig nánar á www.fransktvor.is og www.urridaholt.is
|