22. feb. 2007

Dagur leikskólanna í Garðabæ 1. mars

Dagur leikskólanna í Garðabæ 1. mars
  • Séð yfir Garðabæ


Fimmtudagurinn 1. mars nk. verður dagur leikskólans í Garðabæ. Þá verður opið hús hjá öllum leikskólum í bænum sem eru 11 talsins. Foreldrum verðandi leikskólabarna er sértaklega boðið að kynna sér starf leikskólanna þennan dag til að auðvelda þeim valið á leikskóla.

Öllum 18 mánaða börnum býðst leikskóladvöl

Öllum börnum sem verða 18 mánaða í september á þessu ári býðst leikskóladvöl næsta vetur. Bæjaryfirvöld í Garðabæ leggja ríka áherslu á að leikskólaganga barna sé farsæl. Einn liður í því er að gefa foreldrum kost á að velja í hvaða leikskóla þeir setja barn sitt.

Mikilvægt er að náið samstarf og gagnkvæmt traust sé milli heimilis og leikskóla. Val foreldra á leikskóla er eitt af því sem skiptir máli því þeir þekkja barn sitt best og vita hvernig leikskóli hentar því.

11 ólíkir en góðir leikskólar

Í Garðabæ eru ellefu leikskólar, en það eru Ásar, leikskóladeild Barnaskóla Hjallastefnunnar, Bæjarból, Hæðarból, Kirkjuból, Kjarrið, Lundaból, Montessori setrið, Smábarnaleikskólinn við Ránargrund, Sjáland og Sunnuhvoll. Í öllum þessum leikskólum fer fram fjölbreytt og markvisst leikskólastarf og þar starfa vel menntaðir og reyndir stjórnendur, leikskólakennarar og starfsfólk. Hægt er að nálgast upplýsingar um starf leikskólana og staðsetningu þeirra á vef Garðabæjar www.gardabaer.is

Opið hús á degi leikskólans

Til að auðvelda foreldrum val á leikskóla verður opið hús í öllum leikskólum í Garðabæ þann 1. mars kl.10.00 – 15.00, en þá er dagur leikskólans í Garðabæ. Þar munu leikskólastjórar, leikskólakennarar og starfsfólk kynna starfsemi síns leikskóla.

Dagskipulag leikskólanna er hægt að skoða hér í PDF-skjali.

Leikskólastjórar í Garðabæ vilja einnig kynna frábæra vinnustaði. Því er leikskólakennaranemum við Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri boðið í heimsókn. Þeir eru velkomnir í sumarstörf, því leikskólar í Garðabæ eru opnir yfir sumartímann, en börnin taka sér mánaðar samfellt sumarfrí.

Sækja þarf um fyrir 15. mars

Staðfesting á úthlutun í leikskóla Garðabæjar verður send til foreldra þann 15. mars og þarf því að ganga frá umsókn um leikskóladvöl fyrir þann tíma.

Hægt er að fá upplýsingar hjá leikskólafulltrúa í síma 525-8500 eða með því að senda póst á netfangið annah@gardabaer.is .