15. feb. 2007

Grunnskólarnir kynna starf sitt fyrir foreldrum sex ára barna

Grunnskólarnir kynna starf sitt fyrir foreldrum sex ára barna
  • Séð yfir Garðabæ

Foreldrum barna sem hefja grunnskólanám haustið 2007 er boðið á fund í Tónlistarskóla Garðabæjar miðvikudaginn 28. febrúar kl. 20-21.30, þar sem fimm grunnskólar í Garðabæ kynna starf sitt.

Hægt að velja á milli fimm skóla

Skólarnir fimm eru þeir skólar í Garðabæ sem innrita börn í 1. bekk. Þessir skólar eru Flataskóli, Hofsstaðaskóli, Sjálandsskóli, Alþjóðaskólinn og Barnaskóli Hjallastefnunnar.  Tveir síðastnefndu skólarnir eru einkareknir en ekki eru greidd skólagjöld þar fyrir börn úr Garðabæ, samkvæmt samningum bæjarins við skólana. Foreldrar geta því valið á milli þessara fimm skóla.

Val felur í sér verðmæti

Oddný Eyjólfsdóttir, deildarstjóri skóladeildar segir að markmiðið sé að foreldrar geti valið þá menntun sem þeir telja sínu barni fyrir bestu.

"Í nágrannalöndum okkar hefur það sýnt sig að frjálst val íbúa varðandi þjónustu leiðir til þess að hún batnar um leið og fjölbreytni og fagmennska eykst. Upplýsingagjöf til íbúa eykst gjarnan líka og áhrif þeirra sömuleiðis. Frjálst val verkar líka hvetjandi fyrir nýja aðila til að koma inn á markaðinn og bjóða þjónustu sína. Það eru því mikil verðmæti falin í því að geta valið."

Foreldrar hvattir til að mæta

Oddný segir að foreldrum barna sem fædd eru 2001 verði sendar upplýsingar um skólana og kynningarfundinn í pósti á næstu vikum. Hún hvetur foreldra til að kynna sér vel skólana sem eru í boði. "Kennsluhættir og áherslur skólanna eru ólíkar þótt þeir starfi allir eftir sömu lögum og reglugerðum. Með því að mæta á fundinn fá foreldrar miklar upplýsingar á einum stað og þeir geta auk þess beint fyrirspurnum til forsvarsmanna skólanna. Í framhaldi af fundinum verður innritun í skólana auglýst."

Nemendur Alþjóðaskólans vinna að vísindatilraun

Nemendur í Alþjóðaskólanum vinna að vísindatilraun