15. okt. 2013

Staða framkvæmda í miðbænum

Framkvæmdasvæðunum í miðbæ Garðabæjar hefur nú fækkað úr fjórum í þrjú þar sem framkvæmdum við ný bílastæði meðfram Garðatorgi 7 er lokið.
  • Séð yfir Garðabæ

Framkvæmdasvæðunum í miðbæ Garðabæjar hefur nú fækkað úr fjórum í þrjú þar sem framkvæmdum við ný bílastæði meðfram Garðatorgi 7 er lokið. Þar á nú aðeins eftir að planta trjám í beð meðfram nýjum stoðvegg sem þar er risinn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju fréttabréfi um stöðu framkvæmda í miðbænum sem nú er aðgengilegt á vefnum. 

Þar segir einnig frá því að stigahús bílakjallarans og lyftustokkur verða steyptir upp á næstu vikum. Þegar verktakinn hefur lokið við að reisa veggeiningar mun hann steypa þær súlur inni í bílakjallaranum sem eftir er að steypa sem og botnplötu hans næst Garðatorgi 1. Í kjölfarið verður farið í að leggja rifjadekk á þak bílakjallarans og loka honum. Vonir standa til að það megi fara að fylla að veggjum bílakjallarans um miðjan nóvember og þá skapast forsendur til að hefja vinnu við yfirborðsfrágang í samræmi við nýtt útlit Garðatorgs.

Garðabær, Klasi, ÞG verk og allir þeir sem að verkinu koma þakka öllum sem leið eiga um torgið fyrir þolinmæði þeirra og tillitssemi meðan á framkvæmdunum stendur. 

Fréttbréf um stöðu framkvæmda í miðbæ Garðabæjar, október 2013.