11. jan. 2007

Unnið að endurskoðun grunnskólalaga í Garðabæ

Unnið að endurskoðun grunnskólalaga í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ


Nefnd sem vinnur að endurskoðun grunnskólalaga fundaði nýlega á bæjarskrifstofum Garðabæjar. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar situr í nefndinni sem kemur til með að ljúka störfum á allra næstu vikum. 

Nefndinni var falið að vinna að heildarendurskoðun á gildandi lögum um grunnskóla og skila menntamálaráðherra fullunnum drögum að frumvarpi til nýrra laga í lok vinnu sinnar. 

Samhljómur um fjölmörg atriði

Í áfangaskýrslu nefndarinnar frá því í október 2006 kemur fram að samhljómur er meðal þeirra sem málinu tengjast um fjölmörg atriði. Meðal þeirra atriða sem nefndin hefur lagt áherslu á í vinnu sinni er krafa um aukna samfellu í námi, um aukinn sveigjanleika og valfrelsi, aukið sjálfstæði skóla og einstaklingsmiðaðra nám. Nefndin kallaði fjölmarga á sinn fund til ráðagerða auk þess sem nefndin eða hluti hennar heimsótti fjölmarga skóla og tengdar stofnanir bæði hér á landi og erlendis. 

Ný lög styðji við þróun í skólastarfi

Gunnar Einarsson bæjarstjóri segist afar ánægður með þátttöku í nefndinni.

"Í Garðabæ leggjum við áherslu á að vera í forystu í skólamálum. Við höfum innleitt fjölmargar nýjungar á undanförnum árum m.a. valfrelsi í grunnskólanámi og lagt áherslu á fjölbreytni hvað varðar hugmyndafræði og rekstrarform. Mín sýn er sú að ný grunnskólalög veiti sveitarfélögum meira svigrúm og sjálfræði til að þróa skólastarf til framtíðar með hagsmuni hvers og eins nemanda að leiðarljósi," segir Gunnar. 

Upplýsingar um störf nefndarinnar eru á vef menntamálaráðuneytisins.



Nefndin að störfum á Bæjarskrifstofum Garðabæjar.