11. jan. 2007

Málverkaröðin Úr Sólarljóðum sýnd í Garðabergi

Málverkaröðin Úr Sólarljóðum sýnd í Garðabergi
  • Séð yfir Garðabæ


Myndröðin ÚR SÓLARLJÓÐUM er gjöf frá listamanninum Gísla Sigurðssyni til Garðabæjar og er nú sýnd í fyrsta sinn í Garðabæ. Myndröðin samanstendur af 6 listaverkum.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar tók við gjöfinni formlega fimmtudaginn 11. janúar sl. í félagsmiðstöðinni Garðabergi þar sem verkin eru nú til sýnis.  Myndröðin verður til sýnis í Garðabergi út janúar 2007.  Garðaberg er opið virka daga (nema þriðjudaga) frá kl. 12.30 - 16.30 og allir eru velkomnir þar inn að skoða sýninguna.

Myndröðin byggir á efni úr Sólarljóðum, sem er ein af perlum íslenskra fornbókmennta og eitt af elstu kvæðum okkar. Málverkaröðin var máluð á árunum 1988-1990 og sýnd á einkasýningu Gísla Sigurðssonar á Kjarvalsstöðum árið 1990.


Gunnar Einarsson bæjarstjóri þakkar Gísla Sigurðssyni fyrir höfðinglega gjöf.

 

Gísli Sigurðsson er Garðbæingur og er meðal frumbyggjenda á Flötunum. Hann er fæddur árið 1930 í Úthlíð í Biskupstungum og ólst þar upp. Landslagið þar hafði mikil áhrif á hann, fyrst og fremst Úthlíðarhraun og Gísli var farinn að mála með vatnslitum myndir úr hrauninu áður en hann hafði nokkru sinni séð málverk.

 

Gísli er að mestu sjálfmenntaður myndlistarmaður en hefur þó á fyrri stigum notið tilsagnar hjá Baltasari við tæknileg úrlausnarefni.  Gísli starfaði lengst af sem blaðamaður og var umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins í 33 ár. Enn fremur hefur Gísli starfað sem blaða- og bókateiknari og ritað bækur.


Jóna Sæmundsdóttir formaður menningar- og safnanefndar færði listamanninum blóm og þakkir.


Úr Sólarljóðum - verður til sýnis í Garðabergi, Garðatorgi 7 út janúar.