10. jan. 2007

Forráðamenn spurðir um vetrarfrí í grunnskólum

Forráðamenn spurðir um vetrarfrí í grunnskólum
  • Séð yfir Garðabæ


Könnun um vetrarfrí í grunnskólum hefur verið send til forráðmanna allra nemenda í grunnskólum í Garðabæ. Í könnuninni er spurt um viðhorf til sameiginlegra starfsdaga og vetrarfría í grunnskólum í Garðabæ. Niðurstöður könnunarinnar verða hafðar til hliðsjónar við skipulag skólastarfs næstu árin og því er mikilvægt að sem flestir taki þátt.

Reynsla komin á samræmt skóladagatal

Í grunnskólum í Garðabæ hafa skóladagatöl undanfarin ár verið samræmd með tilliti til starfsdaga og vetrarfría. Þessi sömu ár hafa nemendur fengið fimm daga vetrarfrí á vorönn. Nú er komin nokkur reynsla á þetta fyrirkomulag í grunnskólunum í Garðabæ.

Vetrarfrí þýðir lengra skólaár

Þegar könnuninni er svarað eru forráðamenn beðnir um að hafa í huga að vetrarfrí þýðir að skólaárið lengist um þrjá daga. Það byrjar fyrr að hausti og/eða lýkur síðar að vori. Skóladagar nemenda eiga að vera 180 á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní. Séu engin vetrarfrí gefin geta skólarnir því hafið starf sitt eftir 20. ágúst og skólaslit verið fyrir 10. júní svo framarlega sem skóladagar nemenda eru ekki færri en 180.

Niðurstöðurnar verða leiðbeinandi

Spurningar í könnuninni eru innan við 10 og það ætti ekki að taka nema nokkrar mínútur að svara þeim. Það er mikilvægt fyrir alla aðila að þátttaka í könnuninni sé góð svo niðurstöðurnar geti verið leiðbeinandi um skipulag skólastarfs í grunnskólum í Garðabæ.

 



Myndin er tekin í skíðaferðalagi nemenda Garðaskóla