1. jún. 2007

Nýjar reglur um tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum

Nýjar reglur um tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarráð hefur samþykkt nýjar reglur um greiðslur vegna tónlistarnáms í öðrum sveitarfélögum en Garðabæ.

Undantekning er sérhæft nám utan Garðabæjar

Samkvæmt reglunum er stefnt að því að almennt tónlistarnám fari fram í Tónlistarskóla Garðabæjar. Undantekning frá þessu er ef nám er sérhæfðara en boðið er upp á þar eða það er af öðrum ástæðum talið hagkvæmt að nám fari fram í öðrum tónlistarskóla. Sem dæmi um sérhæft nám má nefna jazznám á efri námsstigum og sértækt nám í einsöng.

Þurfa að uppfylla kröfur um ástundun og framvindu í námi

Garðabær mun greiða kennslukostnað í tónlistarskóla fyrir nemendur sem óska að stunda nám í öðrum tónlistarskóla en Tónlistarskóla Garðabæjar að tilteknum kröfum uppfylltum um ástundun og framvindu í námi. Nemendur þurfa í öllum tilfellum að sækja um greiðslu kostnaðar með því að skila inn umsókn á Bæjarskrifstofur Garðabæjar. Fjöldi nemenda sem greitt er með samkvæmt reglunum getur takmarkast af svigrúmi í fjárhagsáætlun hverju sinni.

Nýjar umsóknir falla strax undir reglurnar

Þeir sem voru í tónlistarnámi utan Garðabæjar á síðasta skólaári, þ.e. 2005-2006 og óska eftir áframhaldandi heimild til þess geta fengið heimild sína samþykkta til eins árs óháð skilyrðum nýju reglanna. Nýjar umsóknir um heimild til tónlistarnáms utan Garðabæjar falla hinsvegar strax undir reglurnar. Þeir sem eru að sækja um heimild í fyrsta sinn þurfa að skila inn þeim gögnum með umsókn sinni sem tilgreind eru á eyðublaðinu, þ.e.

  1. Staðfest afrit af námsástundun sl. 3 ára
  2. Staðfest afrit af meðaleinkunnum sl. 3 ára
  3. Staðfest afrit af námsvottorði síðasta skólaárs.
  4. Umsögn kennara í aðalnámsgrein
  5. Staðfesting tónlistarskóla á að umsækjandi hafi staðist inntökupróf.

Reglurnar um tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum og umsóknareyðublöð eru aðgengileg á vefnum.

Umsækjendum er bent á að kynna sér reglurnar vel og útvega viðeigandi fylgigögn áður en umsókninni er skilað á Bæjarskrifstofur Garðabæjar. Umsóknarfrestur fyrir skólaárið 2006-2007 er til 1. ágúst 2006.