4. sep. 2013

Landsfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn í Garðabæ

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt landsfund skógræktarfélaga á landinu í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli daganna 23.-25. ágúst sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt landsfund skógræktarfélaga á landinu í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli daganna 23.-25. ágúst sl. Aðildarfélög innan Skógræktarfélags Íslands eru 60 og dreifð um allt land. Um 170 fulltrúar og gestir sóttu fundinn í Garðabæ.

Fjölbreytt dagskrá

Dagskrá fundarins var fjölbreytt. Flutt voru ávörp í upphafi fundar á föstudeginum og var Gunnar Einarsson, bæjarstjóri á meðal þeirra sem ávörpuðu fundarmenn. Mörg fræðsluerindi voru á dagskrá, m.a. um eldvarnir á skógræktarsvæðum, hugmyndir að skipulagi Úlfljótsvatns, jarðar í eigu Skógræktarfélags Íslands, um Græna trefilinn og skipulag skógræktar ofan höfuðborgarsvæðisins. Einnig gerð grein fyrir útivist og skógrækt við endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.

Sýnd var heimildarmynd um upphaf Landgræðsluskóga á Íslandi sem hófst í Smalaholti í Garðabæ 10. maí 1990 þegar frú Vígdís Finnbogadóttir forseti gróðursetti fyrstu plöntuna að viðstöddu fjölmenni. Gísli Gestsson kvikmyndagerðamaður vann myndina en í henni er m.a. viðtal við frú Vigdísi sem tekið var nýlega í skóginum í Smalaholti.

Samningur undirritaður

Á föstudeginum eftir hádegi var farið í skoðunarferð um Garðabæ þar sem gestum var boðið í hús Náttúrufræðistofnunar Íslands á Urriðaholti, í Grænagarð á Garðaholti þar sem Hólmfríður dóttir Sigurðar Þorkelssonar tók á móti skógræktarfólki og sagði frá ræktunarsögu fjölskyldunnar á meðan harmonikuleikur Sigríðar Ólafsdóttur ómaði um skóginn. Endað var í Vífilsstaðahlíð þar sem tekið var á móti gestum með veitingum í boði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Við það tækifæri undirrituðu Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Þröstur Ólafsson formaður Skógræktarfélags Reykjvíkur samstarfsamning milli Garðabæjar og félagsins um rekstur á Garðabæjarhluta Heiðmerkur.

20 milljónasta plantan

Eftir hádegi á laugardeginum var boðið upp á útivist á skógræktarsvæðum Skógræktarfélags Garðabæjar. Byrjað var í Smalaholti þar sem ungur trjásýnireitur með merktum trjám og runnum var skoðaður. Við Furulund, nýlegan áningarstað í Smalaholti, gróðursetti frú Vigdís Finnbogadóttir 20 milljónustu landgræðsluskógarplöntuna, ask, sem táknræna athöfn fyrir landsverkefnið er hófst 1990 eins og áður hefur kom fram. Því næst var gestum boðið í göngu um skóginn sem endaði í Sandahlíð með veitingum, lúðrablæsti og söng.

Viðurkenningar fyrir góð störf

Hápunktur aðalfundarins var hátíðarkvöldverður á laugardags kvöldinu. Við það tækifæri afhenti Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar, þeim Barböru Stanzeit, gjaldkera Skógræktarfélags Garðabæjar til fjölda ára, Erlu Bil Bjarnardóttur, formanni félagsins sl. 25 ár, Sigurði Björnssyni fyrrum ritara félagsins og Sigurði Þorkelssyni í Grænagarði.

Stjórn Skógræktarfélags Íslands var endurkjörin í lok fundarins. Formaður þakkaði Garðbæingum fyrir góðan undirbúning fundarins þar sem allt gekk snurðulaust.