2. sep. 2013

Frábærir stórtónleikar

Garðabær og hljómsveitin Of Monsters and Men buðu til stórtónleika á túninu við Vífilsstaði laugardaginn 31. ágúst sl. Talið er að amk 20 þúsund manns hafi lagt leið sína í Garðabæinn þetta kvöld
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær og hljómsveitin Of Monsters and Men buðu til stórtónleika á túninu við Vífilsstaði laugardaginn 31. ágúst sl. Tónleikarnir í Garðabæ voru lokatónleikar hljómsveitarinnar eftir að hafa verið í 18 mánaða tónleikaferðalagi um heiminn.  Talið er að amk 20 þúsund manns hafi lagt leið sína í Garðabæinn þetta kvöld og tónleikagestir voru á öllum aldri.  Góð stemming var á svæðinu og fólk skemmti sér vel. 

Glæsileg tónlistardagskrá

Kvöldið byrjaði með upphitun hljómsveitarinnar Hide Your Kids sem er skipuð ungum og efnilegum Garðbæingum. Því næst tók hljómsveitin Moses Higthower við og að lokum tók Mugison við og hitaði tónleikagesti upp áður en aðalhljómsveitin steig á svið. Gestir gátu einnig keypt veitingar af félögum úr bænum og einnig voru til sölu sérhannaðir bolir til styrktar Barnaspítala hringsins.

Hljómsveitin Of Monsters and Men steig á svið samkvæmt áætun um kl. 20:40 og spilaði við góðar undirtektir allt til kl. 22.  Greinilegt var að þau voru ánægð með að spila í heimabyggð og glöð yfir hvað það var góð mæting á Vífilsstaðatúnið. Tónleikarnir voru í beinni útsendingu á Rás 2. 

Umgjörð og skipulag

Tónleikagestir virtu umferðarlokanir þetta kvöld sem voru nokkuð umfangsmiklar en stór hluti Vífilsstaðavegar var lokaður í kringum Vífilsstaði og nágrenni auk þess sem hluti Reykjanesbrautar var lokuð.  Hjálparsveit skáta í Garðabæ sá um að manna umferðarlokanir og var með almenna gæslu á svæðinu, óhætt er að segja að félagsmenn þeirra hafi staðið sig frábærlega.  Einnig var ánægjulegt að sjá hve margir tónleikagestir nýttu sér strætóleiðir sem í boði voru um kvöldið og margir hafa haft samband við bæjarskrifstofur Garðabæjar til að þakka fyrir þetta fyrirkomulag sem tókst vel upp.  Garðabær vill koma á framfæri þakkir til allra þeirra sem komu að undirbúningi þessa kvölds.