30. ágú. 2013

Stórtónleikar í Garðabæ

Garðabær og hljómsveitin Of Monsters and Men bjóða til stórtónleika á túninu við Vífilsstaði laugardaginn 31. ágúst nk.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær og hljómsveitin Of Monsters and Men bjóða til stórtónleika á túninu við Vífilsstaði laugardaginn 31. ágúst nk. Tónleikarnir í Garðabæ eru loka tónleikarnir í 18 mánaða tónleikaferðalagi hljómsveitarinnar um heiminn. 

Þrír af fimm meðlimum hljómsveitarinnar eru úr Garðabæ og fjórði meðlimurinn, söngkonan Nanna Bryndís, býr nú í Garðabæ. Hljómsveitin endar því tónleikaferðalagið sannarlega á heimavelli.  

Dagskrá tónleikanna er þannig:

17:00 Túnið opnar
18:00 Hide Your Kids
18:30 Moses Hightower
19:30 Mugison
20:40 Of Monsters and Men
22:00 Lok

Lokanir á umferð

Engin almenn bílaumferð verður leyfð við Vífilsstaði á meðan á tónleikunum stendur og þar til tónleikagestir verða farnir heim. Vífilsstaðavegur verður lokaður við Karlabraut í vestri og í austurátt. Einnig verður hluti Reykjanesbrautar lokaður frá kl. 19 þar til tónleikum lýkur, nánar tiltekið í norðri við Arnarnesveg og í suðri við Kauptúnsafleggjarann. Lokanir eru gerðar í samráði við lögreglu, slökkvilið, Strætó, Vegagerðina og Hjálparsveit skáta í Garðabæ til að koma í veg fyrir umferðarteppu í kringum Vífilsstaði og fá þannig greiðan aðgang fyrir strætó úr Kauptúni, Mjódd og Garðabæ. 

Bílastæði og FRÍAR ferðir með Strætó

Aðalbílastæði tónleikanna verður á Kauptúnssvæðinu í Garðabæ þar sem meðal annars IKEA er til húsa. Frá Kauptúnssvæðinu býður Garðabær upp á FRÍAR ferðir með Strætó til og frá Vífilsstaðatúni. Strætóferðin tekur um fimm mínútur á tónleikasvæðið. Frá Kauptúni er einnig gönguleið að Vífilsstöðum og tekur það um 20 mínútur að koma fótgangandi.

Frá skiptistöð Strætó í Mjóddinni býður Garðabær einnig upp á FRÍAR ferðir með Strætó til og frá Vífilsstaðatúni. Strætóferðin tekur um 10 mínútur. Frá Ásgarði og um Bæjarbraut býður Garðabær upp á FRÍAR ferðir með Strætó til og frá Vífilsstaðatúni. Einnig verður boðið upp á strætó frá Álftanesi (Breiðumýri) á klukkustunda fresti, farið á heila tímanum frá Álftanesi og á hálfa tímanum til baka.

Allar strætóferðir hefjast kl. 17:00 og standa yfir allan tímann sem dagskrá er í gangi og eftir tónleika. Aðalstrætóleiðirnar eru frá Kauptúni og Mjóddinni.

Bílastæði fyrir fatlaða verða við Vífilsstaði.

Tónleikagestir hafa einnig aðgang að bílastæðum í Molduhrauni í Garðabæ, þar sem meðal annars Marel er til húsa. Ekki verða ferðir með Strætó þaðan og fólki bent á að fara gönguleiðina yfir hraunið og undir Reykjanesbrautina að Vífilsstaðatúni.

Kort sem sýnir lokanir á vegum, strætóleiðir og gönguleiðir að tónleikasvæðinu

Fjölskylduskemmtun

Garðbæingar eru sérstaklega hvattir til að nýta sér gönguleiðirnar úr Garðabæ yfir á Vífilsstaðatún.
Einnig verður hægt að geyma hjól við leikskólann Sunnuhvol. Gestir tónleikanna eru hvattir til að fylgjast vel með veðurspá og klæða sig eftir veðri.

Stjarnan, Ungmennafélag Álftaness, Skátafélagið Vífill og Skátafélagið Svanir verða með sölutjöld á svæðinu. Einnig verða seldir sérhannaðir bolir til styrktar Barnaspítala Hringsins.

Hjálparsveit skáta í Garðabæ sér um gæslu og aðstoðar við umferðarstjórnun.

Rás 2 verður með beina útsendingu frá tónleikunum.

Verið velkomin á fjölskylduvæna tónleika þar sem við skemmtum okkur vel saman.